Stuðningsmaður sænska knattspyrnuliðsins Helsingborg var í dag dæmdur í átta mánaða fangelsi fyrir að bera ábyrgð á dauða rúmlega fertugs stuðningsmanns knattspyrnuliðsins Djurgården í mars.
Við réttarhöldin í Helsingborg hélt hinn dæmdi, sem er 28 ára gamall, því fram að um sjálfsvörn hafi verið að ræða en vitnisburður annarra er á annan veg því hinn látni tók ekki þátt í átökum milli stuðningsmanna liðanna tveggja á meðan leiknum stóð þann 30. mars sl.
Hinn látni var 43 ára, fjögurra barna faðir og bara almennur stuðningsmaður Djurgården sem varð fyrir því mikla óláni að vera á röngum stað á röngum tíma og lenti því inni í miðjum slagsmálunum.