Bandaríkjamenn af kúbverskum uppruna búsettir í Flórída-ríki í Bandaríkjunum virðast vera orðnir jákvæðari í garð stjórnvalda á Kúbu ef marka má niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar sem gerð var af Florida International University og birt í dag.
Fram kemur í frétt AFP að 68% þeirra vilji koma á auknum samskiptum á milli Bandaríkjanna og Kúbu. Meðal ungra Bandaríkjamanna af kúbverskum uppruna var hlutfallið 90%. Enn fremur sögðust 69% vilja frjálsa för fólks til Kúbu og 52% vildu að viðskiptabannið sem bandarísk stjórnvöld settu á eyríkið árið 1962 í kjölfar byltingar Fidels Castro yrði afnumið.
Tæpur helmingur, eða 48%, er því hins vegar andvígur að viðskiptabannið verði fellt úr gildi en andstaðan væri minni ef því fylgdi aukinn þrýstingur á að mannréttindi væru virt af kúbverskum stjórnvöldum. Þá kemur fram í niðurstöðunum að 71% telji að viðskiptabannið hafi ekki skilað tilætluðum árangri.