Breska lögreglan leitar nú logandi ljósi að „hrottafengnum“ morðingja sem stakk unga konu frá Saudi-Arabíu til bana. Morðinginn stakk konuna sextán sinnum.
Í frétt Sky-sjónvarpsstöðvarinnar um málið segir að fórnarlambið, Nahid Almanea, hafi verið á göngu í Essex á þriðjudagsmorgun er ráðist var á hana. Konan er klædd í hefðbundin klæðnað múslíma en lögreglan segir að enn sé ósannað að það hafi verið tilefni árásarinnar.
Í kjölfar árásarinnar hefur lögreglan varað fólk við því að vera eitt á ferð í nágrenni staðarins þar sem árásin var framin.
Árásin þykir sambærileg annarri árás í mars. Þá var karlmaður stunginn yfir 100 sinnum í almenningsgarði Colchester. Hann lést af sárum sínum. Lögreglan segir að þó að málin séu lík sé ekki búið að finna tengingu þeirra á milli.