Rændi skyndikonu sem lögreglumaður

Johnnie Shingler
Johnnie Shingler Mynd/Lögreglan í Susquehanna Township

Bandarískur karlmaður á þrítugsaldri á yfir höfði sér fangelsi eftir að hann rændi skyndikonu í bænum Susquehanna Township í Pennsylvaníuríki í síðasta mánuði. Það væri eflaust ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að maðurinn nýtti sér þjónustu konunnar en sagðist strax í kjölfarið vera lögreglumaður.

Atvik máls gerðust 6. maí síðastliðinn þegar karlmaðurinn, Johnnie M. Shingler, svaraði einkamálaauglýsingu á netinu. Í henni falbauð kona líkama sinn á hóteli í bænum. Þangað hélt Shingler og greiddi konunni eitt hundrað Bandaríkjadali, jafnvirði 11 þúsund íslenskra króna, fyrir þjónustu hennar.

Eftir að Shingler lauk sér af dró hann skammbyssu, kvaðst vera lögreglumaður og krafðist þess að fá greidda fjármuni aftur til baka. Dauðhrædd lét konan hann fá peningana og við það yfirgaf Shingler hótelið.

Konan hringdi strax í lögreglu sem handtók Shingler. Hann viðurkenndi við skýrslutöku allar sakargiftir og verður ákærður fyrir rán og fyrir að látast vera lögreglumaður. Honum er gert að mæta fyrir dómara aftur í águst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert