Fleiri Bretar vilja úr Evrópusambandinu

mbl.is

Bretar myndu yfirgefa Evrópusambandið ef þjóðaratkvæði færi fram um það núna samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem unnin var fyrir breska dagblaðið Observer. Samkvæmt könnuninni vilja fleiri Bretar úr sambandinu en þeir sem vilja að Bretland verði áfram innan þess.

Fram kemur í frétt breska dagblaðsins Guardian að 48% séu mjög eða frekar hlynnt því að Bretland gangi úr Evrópusambandinu en 37% séu mjög eða frekar andvíg því. Staðan breyttist hins vegar þegar spurt var um afstöðu fólks til verunnar í sambandinu ef David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, tækist að endursemja með hagstæðum hætti um hana. Þá sögðust 42% vilja vera áfram í Evrópusambandinu en 36% vera andvíg því.

Hins vegar segir í fréttinni að miklar efasemdir séu uppi um að Cameron takist að endursemja um veru Breta í Evrópusambandinu en hann hefur heitið því að þjóðaratkvæði fari fram um málið árið 2017 ef flokkur hans, Íhaldsflokkurinn, vinni hreinan meirihluta á breska þinginu í kosningunum á næsta ári. Þjóðaratkvæðið færi þá fram að afloknum viðræðum við sambandið um breytingar á aðildarskilmálum Breta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert