Tákn friðar eða ofstækis múslíma?

Ghaith bin Mubarak Ali Omran Al-Kuwari (annar f.v.), ráðherra trúmála …
Ghaith bin Mubarak Ali Omran Al-Kuwari (annar f.v.), ráðherra trúmála í Katar, í Rovsingsgade á Norðurbrú á fimmtudag þegar stærsta moska sunní-múslima í Danmörku var tekin í notkun. AFP

Harðar deilur hafa verið undanfarin ár í Danmörku um moskur sem múslímar í landinu vilja reisa en á fimmtudag var opnuð stærsta moska súnní-múslíma í landinu. Hún er á Norðurbrú í Kaupmannahöfn, með bæði kúpul og bænaturn (mínarettu), eins og guðshús múslíma eiga helst að vera með. Sjálf moskan er svo hluti af geysimiklum klasa með samkomusölum, ýmsum menningarstofnunum og leikvöllum á um sjö þúsund fermetra lóð. Kostnaðurinn var um 150 milljónir danskra króna, 31 milljarður ísl. kr.

En verður þetta friðsamlegt guðshús eða tákn um nýjan sigur ofstækisfullra íslamista? Það sem veldur ótta um að moskan verði eins konar hugmyndafræðileg klakstöð fyrir ofstækisöfl og jafnvel hryðjuverk er forsagan. Dæmi eru um slíka misnotkun á moskum víða á Vesturlöndum. Eftir mikla eftirgangsmuni tókst loks að fá fram hverjir bera kostnaðinn í Kaupmannahöfn en þeir reyndust vera ráðamenn í olíufurstaríkinu Katar við Persaflóa. Katarmenn styðja m.a. við bakið á Bræðralagi múslíma sem boðar harðlínustefnu í trúnni og náði um hríð völdum í Egyptalandi.

Og ekki er Katar frekar en flest önnur arabaríki þekkt fyrir að heiðra lýðræðisgildi, réttindi kvenna, réttindi samkynhneigðra eða mannréttindi yfirleitt. Harðlínu-íslamistar halda á lofti hinum fornu lögum íslams sem eru enn, amk. að nafninu til, undirstaða lagakerfis í mörgum múslímalöndum. Þess má geta að herskáir múslímaklerkar fullyrða að í þeim séu ákvæði um að sá sem gangi af trúnni sé réttdræpur. Óttinn við að ofstækis-múslímar refsi trúvillingum með þessum hætti nægir til að fæla flest trúsystkin frá því að ögra þeim.

Fjármögnun verði opinberuð

Dönsk stjórnvöld ætla nú að gefnu tilefni að móta tillögur sem miða að því að varpa skýrara ljósi á fjármögnun trúarsafnaða, segir ráðherra félagsmála, Manu Sareen. Við opnun moskunnar miklu í vikunni voru sárafáir áhrifamenn í stjórnmálum viðstaddir þótt þeir fengju boðsmiða, málið þykir greinilega ekki líklegt til vinsælda hjá almennum kjósendum. Athygli vakti að ekki einu sinni borgarstjóri aðlögunar innflytjenda, Anna Mee Allerselv, sem er úr röðum miðjuflokki Radíkala, mætti og hefur hún þó áður mælt ákaft með því að moskan fengi að rísa.

Inger Støjberg, talsmaður miðju-hægriflokksins Venstre, segist hafa miklar áhyggjur af orðrómi um að Bræðralag múslíma tengist moskunni.

„Ég vona að Pet [danska leyniþjónustan] fylgist vel með staðnum og svo vona ég að hófsamir múslímar, eins og flestir múslímar í Danmörku eru, láti vera að heimsækja hana,“ segir Støjberg.

En mega múslímar ekki reisa sér guðshús eins og aðrir trúarhópar? Þeir eru nær 180 þúsund, næst-stærsta trúarfylking Danmerkur og krefjast sömu mannréttinda og aðrir. Og fáir bera brigður á þá staðhæfingu að allur þorri þessa fólks sé friðsamir borgarar.

En þekktur múslími og gagnrýnandi harðlínumanna íslams, Palestínumaðurinn Yahya Hassan, fékk ekki aðgang að moskunni þegar hún var tekin í notkun. Helstu talsmenn danskra múslímasafnaða hafa líka þótt ósannfærandi þegar þeir gagnrýna ofstækisfulla bókstafstúlkun á kóraninum og öðrum helgiritum íslams.

Einkum þótti tvískinnungur danskra múslímaklerka koma vel fram fyrir nokkrum árum þegar dönsk blöð birtu teikningar sem sýndu Múhameð spámann í óvirðulegu ljósi. Afstaða klerkanna til heiftarlegra viðbragða ofstækismanna var þokukennd, enginn þeirra þorði að benda á að tjáningarfrelsi væri í landinu. Menn yrðu bara að koma sér upp þykkari skráp eins og kristnir menn hafa gert. Þeir svara ekki móðgun við Guð með morði.

Ef til vill voru klerkarnir hræddir um að kalla yfir sig morðingja harðlínuaflanna. Bandaríski lögfræðingurinn Alan Dershowitz benti eitt sinn á að hryðjuverk eru stunduð vegna þess að oftast virka þau. Vestræn blöð eru vís til að birta skopmyndir af Kristi en ekki Múhameð spámanni, reynslan af því var slæm. Þau yrðu auk þess sökuð um rasisma.

Innflutt ofstæki

Ótti ráðamanna í vestrænum ríkjum við hryðjuverk íslamista hefur aukist mjög síðustu vikur og mánuði vegna átakanna í Sýrlandi og nú einnig Írak. Vitað er að minnst 400 breskir múslímar hafa farið til Sýrlands til að taka þátt í „heilögu stríði“. Þeir fá þar þjálfun í vopnaburði og eflast í ofstækinu.

Margir þessara manna eru áfram fullir vígamóðs þegar þeir snúa aftur heim og vilja berjast gegn raunverulegum og ímynduðum fjendum íslams. Nýlega myrti franskur íslamisti, sem nýlega var í Sýrlandi, nokkra gyðinga í París.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert