Ráðherraráð Evrópusambandsins samþykkti á fundi sínum í Lúxemburg í dag að veita Albaníu formlega stöðu umsóknarríkis að sambandinu.
Stækkunarstjóri Evrópusambandsins, Stefan Fuhle, sagði ákvörðunina vera viðurkenningu á þeim árangri sem stjórnvöld í Albaníu hefðu náð við að innleiða nauðsynlegar umbætur og hvatningu til þess að gera betur. Framkvæmdastjórn sambandsins hafði áður gefið grænt ljós fyrir sína parta.
„Enn er langt í aðild að Evrópusambandinu en þetta er mikilvægt skref og það er nokkuð sem Albanía á fyllilega skilið,“ er haft eftir Vesna Pusic, Evrópumálaráðherra Króatíu, á fréttavefnum Euobserver.com.