Dómurinn stendur segir Sisi

Forseti Egyptalands, Abdul Fattah al-Sisi, ætlar ekki að hafa afskipti af ákvörðun dómstóla að dæma þrjá blaðamenn al-Jazeera í sjö ára fangelsi. Fjölmiðlafólk um allan heim hefur mótmælt niðurstöðu dómsins sem og mannréttindasamtök.

Egypsk yfirvöld segja mennina hafa notað miðla sína til að aðstoða íslamistasamtökin Bræðralag múslíma sem hafa verið lýst ólögleg.

Ástralinn Peter Greste og Mohamed Fadel Fahmy, sem er egypsk-kanadískur, fengu sjö ára fangelsi en Egyptinn Baher Mohamed, sem er framleiðandi, hlaut tvo dóma, sjö ára og tveggja ára.

Þremenningarnir neita sök og samkvæmt frétt BBC er fastlega gert ráð fyrir að þeir áfrýji dómnum. Samkvæmt frétt AFP getur Sisi ekki náðað þremenningana fyrr en mál þeirra er komið fyrir æðra dómstig.

Utanríkisráðherra Ástralíu, Julie Bishop segir í samtali við BBC að stjórnvöld í Canberra muni vinna með stjórnvöldum í Egyptalandi til þess að reyna að fá Greste leystan úr haldi eins fljótt og auðið er. 

Peter Greste, Mohamed Fadel Fahmy og Baher Mohamed sjást hér …
Peter Greste, Mohamed Fadel Fahmy og Baher Mohamed sjást hér hlusta á dómara lesa upp niðurstöðuna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert