Súnní-skæruliðar í Írak hafa náð undir sig helstu olíuhreinsunarstöð landsins, í Bajiji sem er norður af höfuðborginni, Bagdad.
Barist hefur verið um hreinsunarstöðina í tíu daga en hreinsunarstöðin sér um að útvega þriðjung af því eldsneyti sem kemur frá Írak. Vegna átaka um hreinsunarstöðina hefur verð á eldsneyti hækkað töluvert í heiminum, segir í frétt BBC.
Það eru hryðjuverkasamtökin ISIS sem hafa náð yfir stóru landsvæði norður og vestur af Bagdad að undanförnu, þar á meðal annarri stærstu borg landsins, Mosúl.
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kom í gær til Bagdad til viðræðna við ráðamenn og trúarleiðtoga. Mun markmið hans ekki síst vera að reyna að fá Nuri al-Maliki forsætisráðherra til að koma á raunverulegu samstarfi við súnní-múslíma um að verjast ISIS.
Talsmaður Malikis sagði í gær að „hundruð“ íraskra hermanna hefðu fallið í átökunum við ISIS.
Furðu hefur vakið hve litla mótspyrnu íraski stjórnarherinn hefur veitt þótt hann sé margfalt fjölmennari en ISIS, betur vopnum búinn og þjálfaður af Bandaríkjamönnum.
Að sögn New York Times er drjúgur hluti stjórnarhersins í reynd talinn ófær um að berjast, kjarkinn skorti. Útbreidd spilling og mistök Malikis, sem hefur nær eingöngu skipað yfirmenn úr röðum sjía-múslíma, hafi grafið undan hernum.