Allir skóladrengir á Nýja-Sjálandi mega safna hári og vera með sítt hár. Þetta er niðurstaða hæstaréttar í dag en tekist hefur verið á um hár unglingspilts í dómskerfi landsins.
Lucan Battison, 16 ára, leitaði til lögmanna eftir að hann var rekinn úr St John's menntaskólanum í Hastings í síðasta mánuði fyrir að neita að láta klippa hár sitt. Skólinn, sem er kaþólskur, segir skólareglur kveða á um að hár pilta eigi ekki að ná niður fyrir skyrtukragann og eigi ekki heldur að byrgja þeim sýn. Þrátt fyrir að Battison hafi boðist til þess að vera með hárið í tagli var honum vísað úr skóla.
Við réttarhöldin kom fram í máli lögmanns Battisons að málið snérist um réttindi einstaklingsins, líkt og mannréttindabarátta Martin Luther King og baráttufólks fyrir réttindum kvenna til að kjósa.
Málið hefur vakið mikla athygli á Nýja-Sjálandi og fátt jafn mikið rætt á samfélagsmiðlum.
Að sögn dómara er orðið tímabært að skólinn endurskoði reglur sínar og það að pilturinn hafi neitað að klippa sig eigi ekki að vera brottrekstrarsök. Skólayfirvöld hafa sent frá sér tilkynningu þar sem þau harma niðurstöðu hæstaréttar en þau muni hlýða niðurstöðunni.