Lögregla í Mexíkó handtók í gær Jose Manuel Mireles, en hann er leiðtogi sveitar sem hefur tekið lögin í eigin hendur og barist gegn glæpagengjum í Michoacan ríki landsins. Mireles var handtekinn í hafnarborginni Lazar Cardenas þar sem hann var ásamt um 600 vopnuðum stuðningsmönnum sínum og voru um 100 þeirra einnig handteknir.
Vopnin sem þeir báru eru eingöngu ætluð til notkunar af her landsins, en hópurinn var nýkominn frá bænum La Mira. Mireles hélt því fram að íbúar bæjarins hefðu beðið hann um aðstoð og vernd gegn glæpagengjum sem ráða ríkjum á svæðinu.
Bændur og aðrir óbreyttir borgarar í Michoacan gripu til vopna í maí í fyrra þar sem þeir töldu lögregluyfirvöld ekki fær um að takast á við þá ógn sem íbúum stafar af glæpagengjum.
Yfirvöld tóku illa í athæfið til að byrja með, en samþykktu í maí að útvega ákveðnum hópum vopn og búninga og gera starfsemi þeirra löglega. Slíkir hópar þurfa hins vegar að skrá sig hjá yfirvöldum og eru þeir sem ekki gera það handteknir, eins og Mireles og menn hans.