Mannréttindadómstóll Evrópu mun á morgun dæma um hvort búrkubann í Frakklandi sé niðurlægjandi og brot á trúfrelsi. Kona sem er lýst sem „fullkomnum frönskum þegn“ fór með málið fyrir Mannréttindadómstólinn.
Um er að ræða 24 ára gamla háskólagengna konu sem hefur óskað eftir nafnleynd af ótta við hver viðbrögð við málinu verða í Frakklandi. Bann við búrkum og slæðum sem hylja andlit algjörlega hefur verið í gildi í Frakklandi frá árinu 2010. Það var ríkisstjórn Nicolasar Sarkozy sem setti bannið og núverandi ríkisstjórn er því sammála.
Konan sem sækir málið á einnig fjölskyldu í bresku borginni Birmingham og hún telur að bannið sé brot á trúfrelsi og tjáningarfrelsi og að um mismunun sé að ræða.
Lögmaður hennar, sem er breskur, Tony Muman, sagði við málflutning fyrir Mannréttindadómstólnum í fyrra að konan væri hinn fullkomni franski ríkisborgari með háskólagráðu. „Hún talar um land sitt með ástríðu... Hún er föðurlandsvinur,“ sagði Muman við réttarhöldin.
Konur sem hylja sig að fullu á opinberum stöðum eiga yfir höfði sér allt að 150 evra sekt. Belgía og hluti Sviss hafa fylgt í fótspor Frakklands og tekið upp sambærilegt bann. Ítölsk og hollensk yfirvöld hafa einnig íhugað að taka upp slíkt bann.
Einungis nokkrir dagar eru síðan hæstiréttur Frakklands staðfesti dóm héraðsdóms frá árinu 2008 þar sem staðfest var að heimilt hafi verið að reka konu sem starfaði á leikskóla í úthverfi Parísar fyrir að neita að koma án slæðu í vinnu. Öll trúartákn, svo sem höfuðklútar, kollhúfur gyðinga, síka-túrbanar o.fl. eru bönnuð í ríkisskólum í Frakklandi.
Á morgun verður tekið fyrir í áfrýjunardómstól í Versölum mál manns sem brást við með ofbeldi þegar lögregla krafði eiginkonu hans, sem var með slæðu fyrir andlitinu, um persónuskilríki. Maðurinn var dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brot sitt.