Fordæma morðið á piltinum

Palestínsk og ísraelsk stjórnvöld hafa fordæmt morðið á sautján ára gömlum palestínskum pilt, Mohammed Abu Khdair, sem var myrtur aðfararnótt miðvikudags. Útför hans fer fram í dag.

Eldfimt ástand er í Jerúsalem og víðar vegna morðsins sem er talið hafa verið framið í hefndarskyni fyrir morð á þremur ísraelskum piltum í síðasta mánuði.

Palestínskir skæruliðar á Gaza hafa skotið nokkrum eldflaugum yfir til Ísrael í nótt og Ísraelsher svarað með loftárásum á Gaza.

Samkvæmt upplýsingum frá Ísraelsher skutu skæruliðar um tuttugu flaugum og sprengjum yfir landamærin og voru skotmörk þeirra vopnaverksmiðjur og æfingabúðir hersins. 

Ashraf Al Qidra, sem starfar í heilbrigðisráðuneytinu á Gaza, segir í samtali við BBC að tíu Palestínumenn hafi særst í loftárásum Ísraelsmanna og fluttir á sjúkrahús.

Í Jerúsalem kom til átaka á milli palestínskra ungmenna og ísraelsku lögreglunnar. Hundruð grímuklæddra Palestínumanna köstuðu grjóti á óeirðarlögreglu sem svaraði með því að skjóta gúmmíkúlum og beita táragasi.

Forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu, fordæmdi  morðið á piltinum sem hann sagði fyrirlitlegt. Hann hvetur bæði Palestínumenn og Ísraela til þess að taka ekki lögin í sínar hendur. Fjölskylda eins ísraelsku piltanna þriggja sem fundust látnir á mánudagskvöldið fordæmdir einnig morðið og segir að hefndarmorð séu skelfileg.

Frá því Khdair var myrtur aðfararnótt miðvikudags hafa að minnsta kosti 65 særst í átökum, meðal annars vegna skotsára og af því að fá gúmmíkúlur í sig. Þar á meðal eru sex blaðamenn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert