Rússnesk stjórnvöld bönnuðu í dag innflutning til Rússlands á ýmsum mjólkurvörum frá Úkraínu vegna meintra brota á heilbrigðisreglum við framleiðsluna. Neytendastofa Rússlands hefur lýst því yfir að fyrirtækið Milkiland, sem er með höfuðstöðvar í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu, hafi brotið í bága við rússneskar reglur.
Fram kemur í frétt AFP að stofnunin hafi meðal annars gert athugasemd við magn fitusýra í ýmsum af þeim ostum sem Milkiland framleiðir. Innflutningur frá sjö verksmiðjum fyrirtækisins verður fyrir vikið ekki heimilaður til Rússlands. Innflutningur frá tveimur öðrum verksmiðjum Milkiland hafði þegar verið stöðvaður. Rússnesk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd fyrir að misnota innflutningsbann sem þetta í pólitískum tilgangi.
Fyrr í þessari viku bannaði embætti yfirdýralæknis Rússlands innflutning á unnum kjötvörum frá Moldóvu einungis nokkrum dögum eftir að moldóvsk stjórnvöld ásamt ráðamönnum í Úkraínu skrifuðu undir samstarfssamning við Evrópusambandið þrátt fyrir mótmæli frá rússneskum stjórnvöldum. Þá bönnuðu Rússar á síðasta ári innflutning á súkkulaði frá fyrirtækinu Roshen sem er í eigu núverandi forseta Úkraínu, Petros Porosjenskó.