Ekki jafn eldfimt í tæp 2 ár

Ísraelskar herþotur gerðu yfir fimmtíu loftárásir á Gaza í nótt eftir að Hamas gerðu ítrekaðar árásir á Ísrael fyrr í nótt. Ástandið milli ríkjanna tveggja hefur ekki verið jafn eldfimt síðan í nóvember 2012.

Samkvæmt upplýsingum frá Gaza særðust sautján í árásunum, þar á meðal sjö börn. Tveir eru í lífshættu. Átök blossuðu upp í nokkrum bæjum í gær eftir að það fréttist að þrír ísraelskir öfgamenn hefðu játað að hafa kveikt í palestínskum pilti og myrt hann. 

Samkvæmt upplýsingum frá Ísraelsher voru gerðar yfir 50 árásir í nótt en með þeim var herinn að svara flugskeytaárásum Palestínumanna á suðurhluta Ísrael fyrr í nótt. Yfirvöld á Gaza segja hins vegar að loftárásirnar hafi verið mun fleiri og margar þeirra hæft borgina Khan Ynis. Hernaðararmur Hamas segir að með árásunum í nótt hafi Ísraelsher farið yfir strikið og verði látinn gjalda fyrir það dýru verði.

Hernaðararmur Hamas skaut yfir áttatíu flaugum yfir suðurhluta Ísraels í gær og þriðjungi þeirra var skotið á stuttu tímabili í gærkvöldi. 

Öllum skólum og sumarbúðum hefur verið aflýst á svæði sem er í um 40 km fjarlægð frá Gaza vegna árása Hamas á Ísrael.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert