Mahmud Abbas forseti Palestínu sagði í dag að Ísraelsmenn fremji þjóðarmorð á Gaza, en a.m.k. 29 Palestínumenn létu lífið í gær og 7 í dag. Hamas-samtökin héldu áfram gagnárásum sínum á Ísrael, þar sem þúsundir manna leituðu skjóls undan eldflaugunum.
Undanfarna þrjá daga hefur vaxandi ofbeldi verið á bága bóga milli Ísraels- og Palestínumanna og er heildafjöldi látinna nú 57 manns, allt Palestínumenn. Þótt enginn Ísraelsmaður hafi látið lífið hafa Hamas-samtökin þó látið finna fyrir sér með stríðum straumi flugskeyta yfir landamærin og hafa almannavarnarlúðrar verið þeyttir vegna þessa frá Gaza til Tel Aviv, Jerúsalem og Haifa.
Ekki er vitað til þess að flugskeyti Hamas-liða hafi valdið neinu tjóni Ísraelsmegin, því flest hafa þau lent á auðum svæðum í jaðri byggðar eða í hafinu.
Abbas sagði í dag að ekki væri hægt að kalla það neitt annað en þjóðarmorð þegar heilu fjölskyldurnar séu drepnar. Faðir og sjö synir hans voru meðal þeirra sem létu lífið í dag þegar sprengju var varpað á hús þeirra. Þeir eru allir sagðir hafa verið skæruliðar í Hamas-samtökunum.
Benjamín Netanyaju forsætisráðherra Ísraels hefur varað við enn meiri hörku í aðgerðum Ísraelshers. Skriðdrekum var stillt upp við landamærin að Gaza í dag og er Netanyahu sagður undir miklum þrýstingu frá harðlínumönnum í samstarfsflokki hans í ríkisstjórn um að senda út landgönguliða á Gaza, en allar hersveitir voru kallaðar þaðan árið 2005.
Ban Ki-moon framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hvatti hinsvegar Netanyahu í dag til þess að gæta ýtrustu varúðar og virða alþjóðlegar skuldbindingar við að hlífa almennum borgurum. Neyðarfundur verður í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna á morgun, þar sem Ban mun fara yfir stöðu mála með aðildarríkjunum 15.