Hryðjuverkamenn með náin tengsl við al-Kaída skipulögðu árásir á vinsælustu ferðamannastaði Parísar. Skilaboð gengu á milli 29 ára fransks karlmanns af alsírskum uppruna og háttsetts meðlims al-Kaída og var notuð sérstök dulkóðun. Samskiptin áttu sér stað á einu ári yfir netið.
Franska dagblaðið Le Parisien greindi frá þessu og einnig að upp hafi komist um áætlun franska mannsins, sem nefndur er Ali M, þegar hann var handtekinn. Í blaðinu segir að í apríl 2013 hafi Ali M verið beðinn að útlista áætlun sína í París. Hann hafi sent til baka ýtarlega áætlun um árásir á Louvre-safnið og Eiffelturninn auk menningahátíða í borginni.
Meðal annars tók Ali M fram að svo mikill mannfjöldi væri á þessum svæðum að ein handsprengja myndi duga til að valda miklum skaða.
Í kjölfarið var ákveðið að Ali M færi í tíu daga ferð til Alsír þar sem hann fengi þjálfun. Eftir það ætti hann að halda aftur til Frakklands og bíða frekari skipana. Ali M var handtekinn í júlí 2013, viku áður en hann ætlaði sér að halda til Alsír. Hann hefur verið í haldi síðan.