Mikið mannfall á Gaza

Ísraelsher tókst að eldflaugaárás sem gerð var á Tel Aviv í morgun frá Gaza en á sama tíma gerðu Ísraelsmenn árásir á Gaza. Talið er að tuttugu hafi látist þar í árásum næturinnar, samkvæmt fréttum AFP og BBC í morgun.

Samkvæmt upplýsingum frá Ísraelsher var flaugunum grandað með gagnflaugakerfi hersins,  Iron Dome.

Hernaðararmur Hamas, Ezzedine Al-Qassam, segist hafa skotið tveimur M75 flaugum á Tel Aviv en svo virðist sem Ísraelsher hafi náð að granda þeim. Flaugarnar draga 80 km en Tel Aviv er í um 70 km fjarlægð frá Gazaströnd.

Í frétt BBC kemur fram að flestar árásir Ísraelshers á Gaza í nótt hafi hæft hús og kaffihús í suðurhluta Gaza. 

Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, hvetur Ísraela og palestínska skæruliða til þess að binda endi á átökin en um 70, þar af 18 börn, hafa látist í árásum undanfarna þrjá daga. 

Egyptar hafa opnað Rafah landamærastöðina við Gaza svo hægt sé að flytja særða Palestínumenn yfir landamærin til Egyptalands. Yfirleitt eru landamærin lokuð á þessum stað en nú hefur verið ákveðið að veita særðum læknishjálp á sjúkrahúsum á norðanverðum Sinai-skaga. Rafah er eina leiðin út af Gazaströndinni sem ekki liggur að Ísrael.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert