Rúningsmenn misþyrmdu kindum harkalega

Dýraverndunarsamtökin PETA hafa birt myndskeið sem sýnir rúningsmenn í Ástralíu misþyrma kindum, m.a. kýla þær í andlit og berja með verkfærum. Landbúnaðarráðherra Ástralíu fordæmir misþyrmingarnar sem hann segir grimmilegar. Varað er við myndskeiðinu sem fylgir fréttinni.

PETA segir að menn á vegum samtakanna hafi dulbúið sig og myndað starfsmennina með leynd. Í myndskeiðunum sjást rúningsmenn beita dýrin harkalegu ofbeldi í Ástralíu sem er þekkt fyrir sína ullarframleiðslu.

Talsmenn PETA segja að myndskeiðin hafi verið tekin upp á 19 stöðum, sem verktakar reka, í Ástralíu á milli október 2013 til febrúar 2014.

Rúningsmennirnir sjást slá kindurnar, traðka á hálsi þeirra, kasta þeim harkalaga og sauma sár, án deyfingar að því er virðist. 

Bandaríska sjónvarpsstöðin NBC sagði fyrst frá málinu áður en PETA birti myndskeiðið opinberlega í gær. 

Barnaby Joyce, landbúnaðarráðherra Ástralíu, segir að myndefnið sé skelfilegt, en hann óskaði eftir því að fá að vita meira um uppruna þess og tilurð. 

„Ein af þeim spurningum sem ég vil spyrja varðandi nærmynd af manninum sem er að slá kindina, sem er augljóslega einstakt og miskunnarlaust og í mörgum tilvikum myndi þetta leiða til tafarlauss brottrekstrar, er hvar nákvæmlega var myndavélin,“ sagði hann í samtali við áströlsku útvarpsstöðina ABC. 

„Vissu þeir að það var verið að mynda þá? Voru þeir í raun og veru hluti af ferlinu? Mörgum spurningum er ósvarað,“ sagði hann.

PETA segist ekki ætla að greina frá því hvar myndefnið var tekið. Samtökin segja að það sé gert til að vernda þá sem tóku myndskeiðin upp. 

Dýraverndunarsamtökin RSPCA segja að þetta séu alvarlegar ásakanir og þær verði að rannsaka þar sem mögulega hafa verið brotin lög um velferð dýra.

Hagsmunasamtökin WoolProducers Australia segja í yfirlýsingu að myndefnið sé skelfilegt og að samtökum blöskri meðferðin á dýrunum. Samtökin taka hins vegar fram að um einangrað tilvik sé að ræða.

„Við viljum biðja alla ullarframleiðendur um að taka upp núllstefnu gagnvart illri meðferð dýra og grípa til viðeigandi ráðstafana til að tryggja að þessi óvenjulega heðgun verði stöðvuð,“ segir Geoff Fisken, forseti samtakanna. 

Í mars sl. hófu Ástralir á nýjan leik að flytja kindur og nautgripi til Egyptalands í kjölfar samkomulags sem náðist við innflytjendur varðandi ný viðmið um velferð dýra. 

Flutningi á nautgripum var hætt tímabundið í fyrra eftir að Animals Australia birti mjög grafískar myndir af því þegar nautgrip var slátrað. Þá var hætt tímabundið að flytja nautgripi til Indónesíu árið 2011 í kjölfar ásakana um illa meðferð á dýrum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert