Yfir eitt hundrað íbúar á Gaza liggja í valnum eftir nánast stöðugar loftárásir Ísraelshers frá því á þriðjudag. Á sama tíma láta liðsmenn hernaðararms Hamas eldflaugum rigna yfir Ísrael.
Bandaríkjaforseti, Barack Obama, hringdi í forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu, í gærkvöldi til þess að bjóða fram hjálp við lausn deilu Ísraela og Palestínumanna. Jafnframt lýsti hann áhyggjum sínum af ástandinu fyrir botni Miðjarðarhafs. Vísar hann til friðarsamkomulagsins sem gert var í nóvember 2012 milli Ísraela og Hamas, sem eru við völd á Gaza-ströndinni.
Hvorugur hefur áhuga á að gefa eftir
En Egyptar, sem hafa gegnt lykilhlutverki við vopnahlésviðræður milli ríkjanna tveggja segast tala fyrir daufum eyrum. Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðneyti Egyptalands hefur verið rætt við fulltrúa allra deilenda um að stöðva blóðbaðið og að staðið verði við vopnahléssamninginn frá 2012. Því miður hafi þetta ekki skilað tilætluðum árangri. Svo virðist sem enginn hafi áhuga á að gefa eftir.
Ezzedine al-Qassam herdeild Hamas-samtakanna hefur haldið upp nánast stöðugum árásum á Ísrael og hafa íbúar í Jerúsalem ítrekað þurft að forða sér í neyðarskýli. Hið sama á við um íbúa Tel Aviv og jafnvel Haifa.