Átta Palestínumenn létust í nánast stöðugum loftárásum Ísraelshers á Gaza-ströndina síðdegis í dag. Þetta þýðir að 135 Palestínumenn liggja í valnum á fimm dögum, samkvæmt frétt AFP fréttastofunnar.
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hvatti í dag Ísraela og Hamas til að binda endi á átökin og að virða alþjóðlega mannréttindasamninga og blóðbaðið.
CNN fréttastöðin fjallar um ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs en þar kemur fram að 28 palestínsk börn séu meðal þeirra sem hafa látist í árásum Ísraelshers en engar fregnir hafa borist af mannfalli í árásum Hamas á Ísrael.
Varnarmálaráðherra Ísraels, Moshe Ya'alon talar í dag um þau afrek sem unnin hafa verið og eyðingu skotmarka í loftárásum lands síns gegn Hamas-liðum á Gaza-ströndinni. Fréttamaður CNN sem er á Gaza segir að þar séu það ekki hernaðarlega mikilvæg skotmörk sem séu fólki ofarlega í huga heldur miklu frekar yfirfull sjúkrahús, látin börn eða börn í nauð og loftárásir sem hafa hæft vatnskerfi Gaza-strandarinnar.
„Það talar enginn um almenna Palestínumenn. Þegar þú bryddar upp á því umræðuefni vill enginn hlusta,“ segir talsmaður Hams, Osama Hamdan, í viðtali við Wolf Blitzer fréttamann CNN. Yfir 950 Palestínumenn hafa særst í árásum Ísraelshers.
Yfir 500 heimili á Gaza hafa eyðilagst í árásunum og nokkur þúsund Palestínumenn hafa misst heimili sín, samkvæmt upplýsingum CNN frá Sameinuðu þjóðunum. Rafmagnslaust er á stórum hluta Gaza borgar en samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum í Ísrael hefur herinn hæft 1.220 staði tengda hryðjuverkastarfsemi á Gaza.