Tala látinna hækkar jafnt og þétt

Sextán Palestínumenn létu lífið í nótt vegna loftárása Ísraelsmanna á Gaza. Þar með er tala látinna komin upp í 121 síðan hernaðaraðgerðirnar hófust á þriðjudag. Þá hafa 750 Palestínumenn særst. Sameinuðu þjóðirnar áætla að um 77% hinna látnu séu almennir borgarar, að sögn BBC. Ísraelsmenn fullyrða þó að meðal hinna látnu séu „tugir hryðjuverkamanna“.

Ísraelar hófu aðgerðina „Protective Edge“ á þriðjudag, með því markmiðið að binda endi á loftskeytasendingar Hamas-liða, sem hafa þó ekki valdið teljanlegu tjóni til þessa. BBC hefur eftir Benjamín Netanyahu forsætisráðherra Ísraels að síðan þá hafi sprengjum verið varpað á yfir 1000 skotmörk í Palestínu.Tvöfalt meiri herafli sé notaður nú en í nóvember árið 2012, þegar hervaldi var síðast beitt gegn Palestínu af sambærilegri hörku.

Netanyahu segist hafa rætt við bæði Barack Obama og Angelu Merkel en að „alþjóðlegur þrýstingur muni á engan hátt koma í veg fyrir að Ísrael beiti sér af fullum styrk“.

Í hverfinu Tufah í Gazaborg létu þrír lífið í loftárás í nótt, að sögn talsmanns heilbrigðisráðuneytisins, Ashraf al-Qudra. Stuttu áður dóu tveir þegar sprengja féll á góðgerðarstofnun fyrir fatlað fólk í Beit Lahiya í norðurhluta Gaza og þrír til viðbótar létu lífið í árás á vesturhluta borgarinnar.

Fyrr um nóttina tilkynnti Qudra um dauðsfall 8 Palestínumanna, þar á meðal manns sem lést af sárum sínum eftir loftárás fyrr í vikunni, auk fimm manna sem dóu í Jebaliya og tveggja til viðbótar í Deir al Balah.

Stjórnvöld í Palestínu segja að sprengjuregnið í nótt hafi meðal annars verið beint að moskum og heimilum hátt settra manna í Hamas hreyfingunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert