Lögreglan á Norður-Jótlandi leitar nú ellefu indverskra pilta á aldrinum 14-16 ára en ekkert hefur spurst til þeirra í tæpan sólarhring.
Þjálfari þeirra tilkynnti hvarf þeirra um ellefuleytið í gærmorgun en þeir voru þátttakendur á handboltamóti í Dronninglund á Norður-Jótlandi.
Samkvæmt frétt Politiken hefur lögregla ekki fengið neinar vísbendingar um hvar drengirnir halda sig, að sögn Pers Jørgensens, varðstjóra í lögreglunni.
Lýst hefur verið eftir drengjunum á flugvöllum, lestarstöðvum og hjá lögregluembættum um alla Danmörku.
Þjálfarar drengjanna yfirgáfu landið síðdegis í gær eftir að hafa verið yfirheyrðir af lögreglu. Þeir höfðu leitað drengjanna án árangurs og ákváðu loks að leita til lögreglunnar.