Sífellt meiri kraftur settur í árásirnar

Ísraelsher lagði enn meiri þunga í árásir sínar á Gaza í nótt og drap meðal annars átján úr sömu fjölskyldu, þar af tveggja ára gamalt barn. Alls eru 165 látnir síðan á þriðjudag er Ísraelar hófu árásir á íbúa Gaza-strandarinnar.

Meðal annarra skotmarka Ísraelshers voru lögreglustöðvar og stjórnarbyggingar í Gaza-borg. 

Samkvæmt upplýsingum frá Ísraelum skutu Palestínumenn um níutíu eldflaugum frá Gaza-ströndinni yfir á ísraelskt landsvæði. Enginn hefur látist í árásunum í Ísrael.

BBC hefur eftir ísraelskum stjórnvöldum að skotmörk þeirra séu liðsmenn hernaðararms Hamas og byggingar þeirra, þar á meðal heimili. Aftur á móti benda Sameinuðu þjóðirnar á að 77% þeirra sem hafa látist í árásum Ísraela eru óbreyttir borgarar.

Í gær hvatti öryggisráð Sameinuðu þjóðanna til þess að komið yrði á vopnahléi og friðarviðræður hafnar. Þetta er í fyrsta skipti síðan Ísraelar hófu lofthernað gegn íbúum Gaza á þriðjudag sem öryggisráðið tjáir sig formlega um árásirnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert