„Lygin var orðin svo stór og ég vildi ekki að fólk myndi efast um sjálfsvirðingu mína,“ sagði ástralski sundkappinn Ian Thorpe í viðtali á sjónvarpsstöðinni Network Ten í dag. Í viðtalinu talaði Thorpe opinskátt um þunglyndi, áfengisvandamál og viðurkenndi í fyrsta skiptið opinberlega að hann sé samkynhneigður.
Margir fjölmiðlar sögðu frá því í gær að Thorpe hafi ætlað að koma út úr skápnum í viðtalinu í dag, og það gekk eftir. Margt hefur verið skrifað og skrafað um kynhneigð Thorpes í gegnum árin, þrátt fyrir að hann hafi átt í opinberu ástarsambandi við nokkrar konur.
Thorpe segist hafa verið 15 ára þegar fjölmiðlar spurðu hann í fyrsta skiptið út í kynhneigð hans. „Það sem gerðist var að lygin var orðin svo stór og ég vildi ekki að fólk myndi efast um sjálfsvirðingu mína. Egóið mitt spilaði töluverðan þátt í þessu,“ sagði Thorpe. Hann segir að það sé aðeins á undanförnum tveimur vikum sem hann hafi sagt vinum sínum og vandamönnum frá því. Segir hann að það hafi komið móður sinni verulega á óvart, en ekki vinum hans. Allir hafi hins vegar tekið sannleikanum vel.
„Mér líður vel að segja þetta: Ég er samkynhneigður og ég vil ekki að aðrir þurfi að upplifa það sem ég hef þurft að upplifa. Þú getur þroskast og þér getur liðið vel með kynhneigð þína.“ Thorpe segist hafa gert sér grein fyrir„hommafóbíunni“ í samfélaginu. Meðal annars segir hann að hann hafi oft þurft að þola það þegar ókunnugir einstaklingar hafa kallað ókvæmisorð að honum úti á götu. „Ég velti því fyrir mér á tímabili hvort Ástralir hafi viljað að ein aðalíþróttastjarna landsins sé samkynhneigð.“
Thorpe var á sínum tíma besti sundmaður heims og hefur hann unnið níu medalíur á Ólympíuleikum. Hann hóf að æfa sund þegar hann var í endurhæfingu eftir beinbrot sem hann hlaut þegar hann var fimm ára. Hann kunni svo vel við sig í lauginni að hann ákvað að byrja að æfa sund. Strax 18 ára gamall keppti hann á sínum fyrstu Ólympíuleikum, á heimavelli í Sidney árið 2000. Mikil pressa var á herðum hans, enda gríðarlega mikið efni og stóðst hann væntingar þjóðarinnar og vann til þriggja gullverðlauna. Á þriggja ára tímabili, frá árinu 1999 til ársins 2002 setti hann þrettán heimsmet í 50 metra laug. Árið 2001 var sérlega gott fyrir sundkappann þar sem hann vann til sex gullverðlauna á heimsmeistaramótinu í Fukuoka í Japan.
Árið 2006 tilkynnti Thorpe um að hann væri búinn að leggja sundskýluna á hilluna. Árið 2011 ákvað hann hins vegar að taka hana aftur niður af hillunni og freista þess að komast á Ólympíuleikana í London árið 2012. Það tókst honum ekki og fór skýlan aftur upp í hillu. Hann komst raunar á Ólympíuleikana, en aðeins sem sérfræðingur í sundgreinum fyrir sjónvarpsútsendingar BBC.
Líkamlegir burðir Thorpes hafa verið mikið á milli tannanna á fólki frá því að hann synti fyrst inn á sjónarsviðið. Hann var þrekvaxinn, strax sem unglingur og með afar stóra fætur, sem margir töluðu jafnvel um að líkjast froskalöppum. Don Talbot, fyrrum þjálfari ástralska sundlandsliðsins hefur sagt að Thorpe sé með gríðarlega sterkt fráspark og með einstakan hæfileika til snöggra hraðabreytinga.
Thorpe var 18 ára þegar hann hitti fyrst sálfræðing vegna þunglyndis. Seinna hafi hann snúið sér að áfenginu til þess að forðast raunveruleikann.
„Ég er mjög hlédrægur maður og lét engann vita að ég væri þunglyndur. Ég vildi ekki raska gleðinni sem fólk upplifði vegna velgengni minnar. Ég sem lifði Ástralska drauminn átti ekki að vera óhamingjusamur.“
Á tímabili velti Thorpe því alvarlega fyrir sér að fremja sjálfsmorð. „Ég fékk mig hins vegar ekki til þess að gera það. Það hefði valdið fjölskyldu minni og vinum mikilli sorg.“ Hann lýsir lífi sínu þegar þunglyndið var sem verst. „Þú kemst ekki upp úr rúminu. Þú ferð ekki út úr herberginu nema til þess að fara á klósettið.“
Í viðtalinu fjallar Thorpe einnig um lífið framundan. „Ég vil eignast fjölskyldu og börn.“
Sjá frétt The Guardian
Sjá frétt mbl.is: Kemur Thorpe út úr skápnum?