Læknir á sjúkrahúsi í Svíþjóð er grunaður um alvarleg mistök í starfi eftir að hafa mætt í vinnuna á föstudaginn og unnið í nokkrar klukkustundir á bráðamóttöku undir áhrifum áfengis og jafnvel lyfja.
Það voru vinnufélagar hans sem sáu að ekki var allt með felldu hjá lækninum sem var á vakt á bráðamóttöku á föstudagskvöldið. Þeir ákváðu að taka blóðprufu úr lækninum og reyndist hann vera ölvaður, samkvæmt frétt Expressen. Talsmaður lögreglunnar í Vestra Gautlandi (Västra Götaland) segir að talið sé að læknirinn hafi einnig verið dópaður.
Faðir átta mánaða gamallar stúlku neyddist til þess að láta flytja barnið á annað sjúkrahús eftir að læknirinn skrifaði upp á rangan lyfjaskammt fyrir barnið.
Faðirinn segir í samtali við Expressen að læknirinn hafi ítrekað ruglað dóttur hans saman við annan sjúkling og virtist engu skipta ábendingar foreldra um mistök, orðin fóru inn um annað eyrað og út um hitt. Síðar baðst yfirlæknir sjúkrahússins afsökunar og fylgdist sjálfur með því að litla stúlkan fengi viðeigandi lyf. Hefur verið haft samband við alla þá sem leituðu á bráðamóttökuna þetta kvöld og kannað með líðan þeirra. Svo virðist sem engum hafi orðið meint af heimsókninni.