„En við erum fórnarlömbin“

Sameinuðu þjóðirnar hafa breytt skóla sínum í neyðarskýli í Gaza-borg
Sameinuðu þjóðirnar hafa breytt skóla sínum í neyðarskýli í Gaza-borg AFP

Ef yfirvöld á Gaza-svæðinu fallast ekki á vopnahlé munu Ísraelar stórauka árásir sínar á svæðið, segir Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels. Árásirnar hafa haft gríðarlega eyðileggingu í för með sér og líkt og venjulega í stríðum eru það almennir borgarar sem blæðir. 

„Ef Hamas fellst ekki á vopnahléstilboðið – og þannig lítur það út núna – munu Ísraelar hafa lögmætan alþjóðlegan rétt á að auka hernað sinn (á Gaza) til þess að koma á nauðsynlegri ró,“ sagði Netanyahu á sameiginlegum blaðamannafundi með utanríkisráðherra Þýskalands, Frank-Walter Steinmeier, í Tel Aviv.

Alls eru 192 Palestínumenn látnir síðan Ísraelsher hóf loftárásir á Gaza fyrir viku. Enginn Ísraeli hefur látist í árásum hernaðararms Hamas en fjórir eru alvarlega slasaðir. Yfir fjórðungur þeirra sem hafa látist á Gaza eru börn.

Um eitt þúsund heimili hafa eyðilagst í árásunum á Gaza og meðal þeirra er heimili yfirlæknis á stærsta sjúkrahúsinu á Gaza, dr. Nasser Tatar. Í samtali við Guardian lýsir hann því þegar hann kom heim til fjölskyldu sinnar á sunnudagskvöldið eftir að hafa ekki komið heim úr vinnunni í heila viku. Ekki hafi verið hægt að yfirgefa sjúkrahúsið, sem sé yfirfullt af slösuðu fólki eftir árásirnar. Hann segir að hringt hafi verið í frænda hans með tíu mínútna fyrirvara og honum tilkynnt að það ætti að sprengja hús læknisins. 

„Ég fór með fjölskylduna með hraði og varaði nágranna mína við. Síðan skutu þeir eldflaug á hús mitt og nokkrum sekúndum síðar annarri,“ segir Tatar. 

Hann skilur ekki hvers vegna árásum sé beint að honum og fjölskyldu hans. „Ég hef verið læknir í 30 ár. Í fyrstu sem hjartasérfræðingur, síðan sem yfirmaður hjartadeildar og svo sem yfirmaður sjúkrahússins. Ég hef reynt að finna út hvers vegna þetta gerðist en ég hef  ekki fengið nein svör.“

Árið 2008 flúði Umm Samer Marouf Gaza-svæðið eftir að Ísraelar sprengdu upp hús fjölskyldu hennar og jarðarberjaakur hennar, sem þýddi að hún varð skuldum vafin. Nú hefur hún ásamt sjö börnum sínum flúið á ný, samkvæmt frétt New York Times. Nú er það hálfbyggt hús þeirra sem hún efast um að fjölskyldan nái að ljúka við áður en það verður eyðilagt í sprengjuregni.

„Þeir ættu að drepa okkur öll í eitt skipti fyrir öll eða komast að samkomulagi í stað þess að skjóta á okkur á tveggja ára fresti,“ sagði Marouf þar sem hún ræddi við blaðamann NYT í skóla Sameinuðu þjóðanna í Gaza-borg. Búið er að breyta skólanum í neyðarathvarf fyrir íbúa Gaza og hafa allir nágrannar Marouf fengið skjól í skólanum. Yfir 17 þúsund íbúar í norðurhluta Gaza hafa þurft að yfirgefa heimili sín frá því að árásirnar hófust hinn 8. júlí.

Tengdasonur Maroufs, fjögurra barna faðir, missti fót að hluta og þjáist af innvortis blæðingum eftir árás Ísraela á laugardag. Hann var á leið til vinnu í verslun á Gaza þegar árásin var gerð. Þetta er einungis brot af því sem þessi fjölskylda hefur þurft að þola í áranna rás, en frá fæðingu ólst Marouf upp í skugga ótta og óvissu.

Hún sakar Ísraela, Hamas og Fatah um að bera ábyrgð á stöðu íbúa Gaza, þar sem ekki hafi tekist að koma á varanlegum friði. Hún segist heldur ekki hata skæruliða úr hernaðararmi Hamas því að þeir séu að reyna að verja íbúana. „En við erum fórnarlömbin,“ segir Marouf. „Lokuð inni á allar þrjár hliðar.“

AFP
AFP
Fjórðungur þeirra sem hafa látist á Gaza eru börn.
Fjórðungur þeirra sem hafa látist á Gaza eru börn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka