Taka ritvélar aftur í notkun

Þýskir ráðamenn horfa nú til þess að taka upp ritvélar …
Þýskir ráðamenn horfa nú til þess að taka upp ritvélar á ný til að koma í veg fyrir möguleika á að Bandaríkjamenn nái að njósna um viðkvæmustu málefni þýska ríkisins. Árni Torfason

Þýskir stjórnmálamenn íhuga að taka skref aftur á bak í tæknimálum og taka ritvélar aftur í notkun við ritun á viðkvæmum skjölum. Þá horfa þeir einnig til þess að hætta alfarið að nota tölvupóst í öllum sínum samskiptum. Þetta kom fram í viðtali Patrick Sensburg, formann nefndar þýska þingsins um njósnir Bandaríkjamann, í morgunsjónvarpsþætti í gær. Ástæðan fyrir þessari áherslubreytingu eru njósnir Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna (NSA), sem Edward Snowden kom upp um. Þetta kemur fram í frétt Guradian um málið.

Þegar Sensburg var spurður að því hvort horft væri til þess að taka ritvélar í notkun sagði hann að svo væri, en þó ekki rafmagnsritvélar. Hann ítrekaði svo að ekki væri um grín að ræða.

Í síðustu viku var fulltrúa bandarísku leyniþjónustunnar í bandaríska sendiráðinu í Berlín rekinn úr landi eftir að rannsókn ríkissaksóknara vakti upp spurningar um starf hans og meintar njósnir í Þýskalandi. Í tilkynningu frá þýskum stjórnvöldum kom fram að þau líti málið alvarlegum augum og er ljóst að aukin spenna hefur myndast milli ríkjanna vegna njósna Bandaríkjamanna á eigin bandaþjóðum.

Hugmyndir Þjóðverja um að nýta sér gamla tækni á ný til að koma í veg fyrir njósnir er ekki ný af nálinni. Þannig ákváðu rússneskir ráðamenn að fara svipaðar leiðir í fyrra þegar pantaðar voru tugir ritvéla fyrir hæst settu menn innan ríkisins til að koma í veg fyrir að viðkvæm gögn myndu leka út.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert