Flugdólgur sem lýsti því meðal annars yfir að hann væri með sprengju á sér og sagðist ætla að opna hurðina á vélinni róaðist ekki fyrr en flugstjórinn hótaði að skilja hann eftir á Íslandi.
Allvoices greinir frá þessu.
Það var um klukkutíma eftir brottför þegar maðurinn, sem var um borð í vél British Airways á leið frá London til Hawaii, varð órólegur samkvæmt vitnaskýrslu sem tekin var af farþegum og starfsfólki vélarinnar.
Þar kemur fram að maðurinn hafi hrópað: „Ég ætla að sprengja vélina!“
Flugliðar fundu tvær litlar vínflöskur og tvær viskíflöskur í sætinu hans en að þeirra sögn var ekki um að ræða áfengi sem selt var í vélinni.
Maðurinn gekk fram og aftur ganginn og sagði við eina flugfreyjuna: „Ég þori að veðja að ég geti opnað hurðina. Er það áskorun? Ég held ég ætli að gera það.“ Engin svör bárust hins vegar frá flugfreyjunni.
Þá bað flugmaðurinn fjóra flugliða um að yfirbuga manninn og handjárna hann við sætið sitt. Maðurinn hóf þá að öskra og blóta flugliðunum. Því hélt hann áfram næstu sex klukkustundirnar.
Flugmaðurinn varaði þá manninn við því að hann yrði látinn úr vélinni á Íslandi, að sögn farþega í vélinni.
Maðurinn var handtekinn við komuna á LAX-flugvöllinn í Los Angeles í Bandaríkjunum og hefur verið kærður. Hann gæti átt von á tuttugu ára fangelsi verði hann fundinn sekur. Fyrirtaka í málinu verður 4. ágúst.
Farþegar sögðu manninn hafa verið ölvaðan og drukkið nokkra bjóra og vínglös á Heathrow-lugvellinum í London fyrir brottför.