Fordæma eldflaugar í skólabyggingu

Eldflaugum skotið frá Gazaborg í áttina að Ísrael.
Eldflaugum skotið frá Gazaborg í áttina að Ísrael. AFP

Flóttamannastofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna sem sinnir palestínskum flóttamönnum, UNRWA, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem fordæmt er að herskáir Palestínumenn hafi notað skóla á vegum stofnunarinnar á Gaza til þess að fela eldflaugar.

Fram kemur í yfirlýsingunni sem gefin var út í dag að við hefðbundið eftirlit starfsmanna UNRWA í gær hafi 20 eldflaugar fundist faldar í húsakynnum skólans en þau hafi ekki verið í notkun. Stofnunin hafi samstundis haft samband við viðeigandi aðila og látið fjarlægja eldflaugarnar. Ennfremur sé hafin rannsókn af hálfu hennar á málinu.

Þá segir að um gróft brot sé að ræða á friðhelgi húsakynna UNRWA samkvæmt alþjóðalögum. Með þessu hafi bæði óbreyttum borgurum og starfsmönnum skólans verið stofnað í hættu sem og því verkefni stofnunarinnar að hjálpa palestínskum flóttamönnum á Gaza. Tekið er fram að skólar á vegum UNRWA hafi ekki verið nýtt með þessum hætti áður.

Yfirlýsing UNRWA

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert