Pútín varpar ábyrgð á Úkraínu

„Þessi harmleikur hefði aldrei orðið ef friður ríkti í Úkraínu,“ sagði Vladímír Pútín Rússlandsforseti í við fjölmiðla í heimalandinu í kvöld. Hann sagði ábyrgðina liggja hjá úkraínskum stjórnvöldum enda hefði farþegaþotan malasíska hrapað á úkraínska grund. „Það er enginn vafi á því að ábyrgðin er hjá ríkinu þar sem þessi hörmulegi atburður varð.“

Pútin sagði einnig að hann hefði skipað æðstu herforingjum sínum að aðstoða á allan hátt við rannsókn á „þessu glæpsamlega athæfi“ sem það var að skjóta farþegaþotuna niður.

Á sama tíma er götublaðið breska The Sun visst í sinni sök hvar ábyrgðin liggur. Á forsíðu blaðsins sem kemur út á morgun stendur stórum stöfum að flugskeytið sé Pútíns. Mikil umræða hefur skapast á samfélagsmiðlum og nokkur gagnrýni á götublaðið fyrir að slá þessu upp.

Aðstæður hroðalegar

Þá hafa fjölmiðlamenn sem komu að malasísku flugvélinni í dag lýst reynslu sinni. „Kona í svarti peysu liggur á bakinu, blóðið streymir úr andliti hennar og vinstri hönd hennar er reist upp, eins og hún sé að biðja um orðið,“ skrifaði Sabrine Tavernise, fréttaritari New York Times. „Annað fórnarlamb, nakið ef frá eru talin svört brjóstahöld, liggur á akrinum. Grátt hár hennar og grasið samanvafin, annar fótleggurinn brotinn og líkaminn allur í sárum.“

Bandaríski blaðamaðurinn Noah Sneider lýsti því á Twitter að lík og líffæri væru um allt. Aðstæður voru svo hroðalegar að ekki væri hægt að taka myndir og birta þær. Hann ræddi einnig við íbúa í grennd sem héldu að flugskeytum hefði verið varpað á þá. En þá hefðu þeir séð eldglæringar á lofti og eftir það tók að rigna braki, líkum og farangri farþega.

298 voru um borð

Varaforstjóri Malaysian Airlines, Huib Gorter, sagði í kvöld að 283 farþegar hefðu verið um borð í flugi MH17 og 15 í áhöfn. Alls hefðu því 298 einstaklingar látist þegar hún hrapaði í gærdag. Hann sagði einnig að flugfélagið muni senda teymi til Úkraínu til að aðstoða við rannsóknina.

Gorter sagði einnig að flugfélagið muni hafa flugvél klára fyrir ættingja hinna látnu vilji þeir halda til Úkraínu og sjá hvar MH17 hrapaði. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert