Samkomulag um vopnahlé hefur náðst á milli Ísraels og herskárra Palestínumanna.
Þetta hefur BBC-fréttastofan eftir ísraelskum embættismanni.
Samkvæmt upplýsingunum á vopnahléið að hefjast á föstudag klukkan sex að morgni að staðartíma.
Talsmaður Hamas-samtakanna sagði þó í samtali við AFP-fréttastofuna fyrir stundu að fréttirnar væru rangar. Ekkert samkomulag hefði náðst um vopnahlé. „Fréttirnar um vopnahlé eru rangar. Viðræður eru í gangi en við höfum ekki komist að samkomulagi,“ sagði Sami Abu Zuhr.
Að sögn ísraelska embættismannsins á að hafa verið samið um vopnahléið eftir fundinn í Egyptalandi á mánudag. Er það ekki í samræmi við yfirlýsingu talsmanns Hamas-samtakanna, í kjölfar fundarins, sem sagði að samtökin höfnuðu því að taka þátt í vopnahléinu sem Egyptar lögðu til. „Vopnahléi án þess að náðst hafi samningar er hafnað, menn leggja ekki niður vopn og semja í kjölfarið,“ sagði Fawzi Barhum.
227 Palestínumenn hafa látist í árásum Ísraela á Gaza síðan þær hófust 8. júlí sl. Einn Ísraeli sem varð fyrir sprengjubroti úr flugskeyti frá Gaza hefur látið lífið.