Staðfest að vélin var skotin niður

Bandarískir embættismenn sögðu í kvöld að upplýsingar leyniþjónustu Bandaríkjanna staðfesti það sem áður hafði ekki verið staðfest, að farþegaþotu Malaysian Airlines, flug MH17, var grandað með flugskeyti sem skotið var á loft frá jörðu niðri. Sömu upplýsingar gátu ekki staðfest hver var að verki.

Ráðgjafi úkraínska inn­an­rík­is­ráðherr­ans sagði í dag að farþega­vél­in hefði verið skot­in niður af aðskilnaðar­sinn­um með flug­skeyti, svokölluðu BUK-skeyti. Bandarískir embættismenn sögðu í kvöld að með slíkum skeytum væri hægt að skjóta niður flugvélar í 30 þúsund feta hæð, þ.e. hæðinni sem malasíska farþegaþotan var í þegar hún hvarf af ratsjá.

Þá er einnig ljóst að bæði Úkraínumenn og Rússar hafa yfir BUk-skeytum að ráða. Leyniþjónustumenn eru enn að afla gagna og ráða í gögn sem eiga að geta gefið betur til kynna hvort það hafi verið aðskilnaðarsinnar hliðhollir Rússum, Rússar sjálfir eða hersveit Úkraínu sem ber ábyrgðina á hrapi MH17.

Um borð voru 280 farþegar og 15 manna áhöfn og eru allir taldir af. Vélin sem var að gerðinni Boeing 777-200 var á leið frá Amsterdam til Kuala Lumpur þegar hún hrapaði í austurhluta Úkraínu. 

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna mun fjalla um hrap MH17 á fundi sínum síðdegis á morgun.

Þá hefur verið gefið út þjóðerni 233 farþega. Af þeim voru 154 farþegar hollenskir, 27 ástralskir, 23 malasískir, sex breskir, ellefu indónesískir, fjórir belgískir, fjórir þýskir, þrír frá Filippseyjum og einn frá Kanada. Enn á eftir að gefa út þjóðerni 47 farþega.

Farþegavélin skotin niður fyrir mistök?

Eins og greint var frá á mbl.is fyrr í kvöld birti úkraínski her­inn upp­töku af því sem hann seg­ir sönn­un þess að rúss­neski her­inn hafi fyr­ir­skipað árás á malasísku farþega­vél­ina. Nú hefur upptakan verið þýdd yfir á ensku og má sjá hana hér að neðan:

Skýrt kemur fram á upptökunni að farþegaþotan var skotin niður fyrir slysni. Aðskilnaðarsinnar hliðhollir Rússum hafi ætlað að skjóta niður úkraínska herflugvél en ekki áttað sig á því að um Boeing 777-200 farþegaþotu var að ræða. Þeir virðast undrandi á því að farþegaþota hafi yfirleitt verið flogið á þessum slóðum. „Vita menn ekki að það er stríð í gangi?“ spyrja þeir.

Upptakan rímar einnig ágætlega við það sem kom fram í frétt mbl.is fyrr í dag um yfirlýsingu aðskilnaðarsinn­a sem birt var klukku­tíma áður en fregn­ir bár­ust af hrapi malasísku farþegaþot­unn­ar. Í þeirri yfirlýsingu var greint frá því að þeir hefðu skotið niður Ant­onov An-26 herflug­vél.

Frekari staðfesting á því hver skaut niður MH17 liggur hins vegar ekki enn fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert