Ísraelsk stjórnvöld hafa nú ákveðið að fækka starfsmönnum í sendiráði landsins í Tyrklandi eftir mótmæli sem áttu sér stað við sendiráðið í Ankara og ræðisskrifstofu landsins í Istanbúl. Þetta staðfestir starfsmaður sendiráðsins við fréttastofuna AFP.
Var fólkið að mótmæla hernaðaraðgerðum Ísraelsmanna á Gaza undanfarna daga.
Starfsmaðurinn lagði þó áherslu á að starfsemi sendiráðsins mun ekki leggjast af heldur aðeins minnkuð. Hluti af starfsmönnum sendiráðsins og fjölskyldur þeirra hafa nú verið send aftur til Ísrael.
Í yfirlýsingu frá utanríkisráðherra Ísrael, Avigdor Lieberman, segir hann að tyrkneskir öryggisfulltrúar hafi ekki staðið sig í að koma í veg fyrir ofbeldið er mörg hundruð mótmælendur réðust á ræðisskrifstofuna í Istanbúl og sendiráðið í Ankara.
Í Istanbúl notaðist lögreglan við táragas og sprautaði vatni til þess að halda aftur af mótmælendunum sem veifuðu palestínskum fánum og köstuðu steinum í húsið. Jafnframt voru gluggar brotnir á húsinu sem er í Levent-hverfi borgarinnar.
Tyrkland minnkaði samskipti sín við Ísrael árið 2010 eftir að ísraelski herinn réðst á tyrkneskt skip á Gaza og tíu manns létust.
Í kjölfarið var ísraelski sendiherrann í Ankara rekinn og krafist var formlegrar afsökunarbeiðni og skaðabóta. Einnig kröfðust tyrknesk yfirvöld þess að Ísrael myndi hætta afskiptum sínum á Gaza.
Forsætisráðherra Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, sem er traustur stuðningsmaður Palestínu, hefur gagnrýnt hernaðaraðgerðir Ísraelhers harðlega og m.a. ásakað Ísrael um að reyna að fremja „kerfisbundið þjóðarmorð“ á Palestínumönnum.