Barack Obama Bandaríkjaforseti sagði að Rússar og Úkraínumenn verði að koma á vopnahléi til að tryggja að rannsókn geti farið fram með eðlilegum hætti á harmleiknum í gær þar sem 298 létu lífið. Hann sagði ljóst að flugskeytið hefði komið frá svæði í haldi uppreisnarmanna, sem hafi Rússa sem bakjarl.
„Næstum 300 saklausir týndu lífi. Karlar, konur, börn, hvítvoðungar. Fólk sem hafði ekkert að gera við deiluna í Úkraínu. Dauði þeirra er meira óhæfuverk en orð fá lýst,“ sagði Obama.
Fram kom í máli hans að staðfest sé að minnst einn Bandaríkjamaður hafi verið um borð í flugvélinni. Hann sagði þó ljóst missir Hollendinga sé mestur og áréttaði hann að Bandaríkjamenn finni til samhugar með þeim og vilji sýna allan þann stuðning sem unnt sé.
Obama tók það fram að ýmsar misvísandi upplýsingar hafi og muni koma fram í tengslum við atvikið í gær, en lagði áherslu á að almenningur dragi ekki ályktanir út frá öðru en staðreyndum.
„Það sem við vitum fyrir víst er að sönnunargögn benda til þess að vélin hafi verið skotin niður, frá svæði sem er undir stjórn aðskilnaðarsinna [...] Við vitum að þeir hafa fengið stöðugan stuðning frá Rússlandi, bæði á formi vopna og þjálfunar,“ sagði Bandaríkjaforseti.
„Þetta er alþjóðlegur harmleikur,“ bæti Obama við. Asísk flugvél hefði verið skotin niður í evrópskri lofthelgi og saklaust fólk alls staðar að úr heiminum látið lífið. Það sem þurfi að gerast næst sé að alþjóðasamfélagið bregðist við, Bandaríkin muni halda öllum aðilum við efnið, og til að greiða veginn verði Rússland og Úkraína að koma á vopnaléi.
Bandaríkin hafa boðið fram aðstoð alríkislögreglunnar FBI til rannsóknarinnar og eru þeir á leið til Evrópu.
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, vottar í tilkynningu ættingjum og vinum þeirra sem voru um borð í flugvél malasíska flugfélagsins sem grandað var yfir austurhluta Úkraínu samúð sína. Hann segir skelfilegt að farþegaflugvél hafi verið grandað með flugskeyti og fordæmir verknaðinn harðlega.
Þá segir Gunnar Bragi að áríðandi sé að óháð alþjóðleg rannsókn fari fram án tafar á tildrögum þess að flugvélin fórst. Það sé skýr krafa að rannsóknaraðilar geti safnað gögnum og upplýsingum sem leiði í ljós hver beri ábyrgð á þessum hörmulega verknaði. Einnig verði að gera björgunarfólki kleift að sinna störfum sínum á vettvangi þannig að hinum látnu verði sýnd tilhlýðileg virðing.
Utanríkisráðherra segir brýnt að alþjóðasamfélagið sameinist um að bregðast við þessum forkastanlega verknaði og að binda verði enda á deilur í austurhluta Úkraínu. Hann segir að í heimsókn sinni til Úkraínu í vikunni hafi hann séð að íbúar í austurhluta landsins vilji búa í sátt og samlyndi við landa sína í öðrum héruðum og án íhlutunar erlendra afla.