„Þetta eru ekki hamfarir. Þetta er helvíti“

Slökkviliðsmaður að störfum við flakið.
Slökkviliðsmaður að störfum við flakið. AFP

Vísbendingarnar eru sterkar um atburðarásina sem leiddi til sviplegs dauða 298 manna um borð í malasísku þotunni. Engu að síður eru spurningarnar enn margar, og svörin við þeim eru lykillinn að því hvað gerist næst. Ein stærsta spurningin er hve stórt hlutverk, ef eitthvað, stjórnvöld í Rússlandi léku í harmleiknum.

Átökin í Austur-Úkraínu hafa nú staðið í tæpa þrjá mánuði en mannfall hefur til þessa verið lítið í senn og áttu fáir von á því að það myndi breytast svo skyndilega. Nú liggja 298 manns í valnum, almennir borgarar sem höfðu ekkert með Úkraínudeiluna að gera. Um það er nú rætt á erlendum miðlum að þetta hljóti að gjörbreyta stöðunni og þróun mála í Úkraínu, þótt enn sé ekki ljóst með hvaða hætti.

Bandaríska tímaritið Foreign Policy segir að hvor hliðin sem reynist ábyrg, Rússar eða Úkraínumenn, þá verði mun erfiðara fyrir Barack Obama Bandaríkjaforseta að halda sömu fjarlægð á Úkraínudeiluna og hann hefur gert til þessa. Reynist Úkraína bera ábyrgð verði viðbrögð Bandaríkjanna líklega bundin við aukinn þrýsting á samningaviðræður, en séu Rússar ábyrgir megi búast við harðari refsiaðgerðum. Þá verði Vladimír Pútín kominn í vörn og kunni að neyðast til að draga sig í hlé frá afskiptum af Austur-Úkraínu.

Uppreisnarmennirnir líka í áfalli

„Þetta eru ekki hamfarir. Þetta er helvíti,“ hefur Economist eftir foringja úr sveitum aðskilnaðarsinna sem virtu fyrir sér blóði drifinn vettvang hrapsins í Úkraínu í gærkvöldi. Fréttaritari Economist lýsir því svo að þeim sé verulega brugðið. Braki og líkum rigndi yfir afskekkta sveit í Austur-Úkraínu. Einu byggingarnar í nágrenninu eru lítil kjúklingaverksmiðja og nokkrir sveitabæir. „Hér hefur ekkert gerst í 30 ár,“ sagði annar úr röðum aðskilnaðarsinna í sveitinni.

Flest bendir til þess að flugvél Malaysia Airlines hafi verið skotin niður fyrir hörmuleg mistök. Aðskilnaðarsinnar hafa að undanförnu skotið niður bæði þyrlur og farmflugvél Úkraínuhers. 14. júlí var Antonov-farmflugvél með 8 hermönnum um borð skotin niður og ýmislegt bendir til að árásarmennirnir nú hafi talið sig vera að skjóta á slíka vél, þar til annað kom í ljós.

Aðskilnaðarsinnar hafna því sjálfir að hafa skotið á farþegaflugvélina. Þeir standa nú margir vörð um vettvang harmleiksins til að tryggja greiðan aðgang björgunar- og rannsóknarmanna.

Öll bönd berast að aðskilnaðarsinnum

Það sem er vitað er að flugvélin var skotin niður úr 33.000 feta hæð með flugskeyti hönnuðu af Rússum. Í umfjöllu Economist um málið í dag segir að líklega hafi verið um s.k. Buk-flugskeytakerfi að ræða, sem NATO kallar SA-17,  eða hugsanlega S-300 kerfi, sem NATO kallar SA-10. Hvor búnaðurinn fyrir sig er notaður bæði af rússneska og úkraínska hernum.

Skotið virðist hafa komið úr nágrenni sveitaþorpsins Snezhnoye, um 80 km frá borginni Donetsk og 20 km frá brotlendingarstaðnum, en það er svæði sem aðskilnaðarsinnar hliðhollir Rússum hafa undir sinni stjórn. Það er vel innan drægis jafnvel elstu gerða Buk-skotpalla. Loftskeyti af smærri gerð, s.s. hin rússneska Strela sem skotið er á loft með búnaði bornum á á öxlum manna, draga hinsvegar ekki svo langt. Aðskilnaðarsinnar hafa áður notað slík vopn til að skjóta niður flugvélar.

Snemma í gær, nokkrum klukkustundum áður en MH17 var skotin niður, greindu blaðamenn AP-fréttastofunnar frá því að þeir hefðu séð flugskeytaskotpall nærri Snezhnoye. Svipaðar frásagnir fóru einnig um samfélagsmiðla, frá fólki á svæðinu.

Þá heyrðust fyrst fyrir nokkrum vikum fréttir af því að herskáir aðskilnaðarsinnar í Úkraínu stærðu sig af því að hafa komið höndum yfir Buk-loftskeyti úr búðum úkraínska hersins nærri Donetsk. Fréttir af þessu voru fyrst og fremst fluttar á rússneskum fjölmiðlum og að sögn Economist voru efasemdir um hvort vopnunum hefði sannarlega verið stolið, eða hvort orðrómi um það væri komið af stað til að dylja þan sannleika að Rússar væru að vopnavæða uppreisnarmennina.

Þeirri spurningu hefur einnig verið varpað fram hvort uppreisnarmennirnir í Donetsk hafi kunnáttu til að beita loftskeytakerfinu án aðstoðar þjálfaðra hermanna. Að sögn Economist er ekki útilokað að skæruliðar með grunnþekkingu á búnaðinum gætu beitt honum án þess að vita fyrir víst hvað þær væru að gera.

Í morgun gaf úkraínska leyniþjónustan, SBU, út hljóðbrot úr símtali sem hún segir hlerað milli aðskilnaðarsinna og leyniþjónustu rússneska hersins. Í símtalinu virðast aðskilnaðarsinnar greina frá því að hafa skotið niður flugvél.

Ólíklegt að Úkraínuher beiti loftvörnum

Dóms- og öryggismálaráðherra Hollands, Ivo Opstelten, sagði að út frá upplýsingum hollenska hersins megi slá því föstu að flug MH17 hafi verið skotið niður, en rannsókn verði að leiða í ljós ástæðuna. Hollenskt teymi rannsóknarmanna fer innan skamms af stað til Kænugarðs. 173 af hinum 298 látnu voru Hollendingar.

Vladimír Pútín ræddi við Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands í morgun og kallaði eftir „nákvæmri og hlutlausri“ rannsókn. Hann varpaði í gær ábyrgðinni á stjórnvöld í Úkraínu, með þeim rökum að harmleikurinn hefði aldrei orðið ef friður ríkti í landinu. Hann sagði forseta Úkraínu, Petro Poroshenko, hafa kynnt undir ófriðarbálið með nýlegum aðgerðum til þess að ná aftur yfirráðum á svæðunum sem uppreisnarmenn hafa lagt undir sig.

Að sögn Economist hafa sumir stjórnmálaskýrendur í Rússlandi jafnvel reynt að kenna Úkraínuher um að hafa skotið flugskeytinu. Það sé hinsvegar afar ólíklega tilgátu. Úkraínuher þurfi ekki loftvarnakerfi, þar sem andstæðingar þeirra séu ekki búnir til lofthernaðar.

Bandarísk stjórnvöld hafa heitið aðstoð við að komast að hinu sanna í málinu. Í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu í dag var áréttað að enn lægju ekki allar staðreyndir fyrir. „Það sem við vitum er að þetta atvik varð í samhengi við ástandið í Úkrínu, sem knúið er áfram af rússneskum stuðningi við aðskilnaðarsinna, meðal annars með vopnum, búnaði og þjálfun.“

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fundar um málið eftir hádegi.

Sviðin jörð og lykt af dauða í loftinu þar sem …
Sviðin jörð og lykt af dauða í loftinu þar sem 298 manns létu lífið þegar farþegaflugvél Malaysia Airleins, MH17, var skotin niður í gær. AFP
Björgunarmenn leita að líkum á akrinum þar sem brak flugvélarinnar …
Björgunarmenn leita að líkum á akrinum þar sem brak flugvélarinnar lenti. AFP
Lík sést innan um brak úr flugvél MH17 sem skotin …
Lík sést innan um brak úr flugvél MH17 sem skotin var niður yfir Úkraínu í gær. AFP
Líkin liggja eins og hráviði á um 25 ferkílómetra svæði …
Líkin liggja eins og hráviði á um 25 ferkílómetra svæði þar sem flugvélin var skotin niður. AFP
Mark Rutte forsætisráðherra Hollands hélt blaðamannafund í Haag í morgun …
Mark Rutte forsætisráðherra Hollands hélt blaðamannafund í Haag í morgun þar sem hann sagði að hollenskt rannsóknarteymi yrði sent innan skamms til Úkraínu. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert