Ferðahandbók um Balí og barnaleikföng liggja innan um mannslík og brak úr flugvél Malaysia Airlines á víð og dreif um sveitina í Austur-Úkraínu. Björgunarmenn safna líkunum 298 saman, en þeir eru fáir og umfangið er yfirþyrmandi. Flugvélin sprakk í tætlur og líkin eru dreifð um margra kílómetra svæði.
Björgunaraðgerðum var haldið áfram í birtingu í morgun. Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn ganga á milli flugvélabraksins og stinga niður litlum prikum með hvítum fánum hér og þar, til að merkja staðina þar sem líkin liggja. Tugum slökkviliðsbíla úr nærliggjandi þorpum er lagt við staðinn.
Blaðamenn AFP eru á staðnum og segja lemstruð lík eins og hráviði um allt. Handleggur sést stangast út í loftið, undan farþegasæti sem liggur ofan í skurði. Skammt frá eru ferðatöskur í hrúgu. Tvær vélar, hluti úr lendingabúnaðinum og gluggaröð úr skrokki vélarinnar standa í blautri moldinni. Það rigndi í nótt.
Hundsgelt heyrast úr nágrenninu. Menn úr sveitum aðskilnaðarsinna á staðnum segjast munu skjóta allar hræætur sem nálgist líkin. Stjórnvöld í Kænugarði kenna uppreisnarmönnum og meintum, rússneskum bakhjörlum þeirra um að hafa skotið flugvélina niður. Sjálfir hafna aðskilnaðarsinnar því alfarið. Þeir hafa heitið því að standa vörð um vettvang harmleiksins og tryggja fullan aðgang björgunar- og rannsóknarmanna.
Aðskilnaðarsinnar hafa einnig gefið til kynna að þeir séu tilbúnir að semja um tímabundið vopnahlé, til að greiða fyrir björgunaraðgerðum. Óreglulegur ómur af sprengingum heyrist þó í fjarska. Í vegkantinum hefur lítilli rútu verið breytt í neyðarskýli, þar sem 18 verkamenn úr nærliggjandi námu starfa sem sjálfboðaliðar.
„Auðvitað er þetta óhugnanlegt, en við getum ekki skilið þau eftir svona,“ segir Ivan, 54 ára námuverkamaður og vísar til fórnarlambanna. Það er enginn hópur forvitinna vegfarenda að virða fyrir sér vettvanginn, eins og stundum vill verða. Íbúar í næsta þorpi halda sig innan dyra í dag, flestir í áfallinu yfir blóðbaðinu sem rigndi yfir þá í gær.
„Skilurðu, þetta er eins og ef þriggja hæða bygging hefði hrunið yfir okkur og við rétt sloppið undan,“ segir Pavel, 45 ára bóndi, við blaðamann Afp þar sem hann virðir fyrir sér brak úr flugvélarskrokknum nokkur hundruð metrum frá húsinu hans.
„Ég er í áfalli og mun aldrei gleyma þessu. Það munaði engu að við létum lífið. Það lyktar allt af dauða hérna,“ segir hann á sama tíma og björgunarmaður gengur hjá húsinu með fangið fullt af flöggum til að nota sem merkingar.
Einn björgunarmannanna segir í lágum hljóðum að ólíklegt sé að öll fórnarlömbin finnist. „Við gerum okkur alveg grein fyrir því að við finnum aldrei alla, því þetta er dreift yfir 25 ferkílómetra.“