Reka kristna menn frá Mosul

Búið er að koma upp flóttamannabúðum í nágrenni Mosul fyrir …
Búið er að koma upp flóttamannabúðum í nágrenni Mosul fyrir þá sem flýja hafa þurft borgina. Mynd/AFP

Meðlimir öfgahreyfingarinnar ISIS hafa nú sett kristnum mönnum í Mosul, næststærstu borg Íraks, afarkosti. Annaðhvort taka þeir upp íslamstrú, borga sérstakt verndargjald til samtakanna eða verða teknir af lífi. 

Hótunin var samkvæmt CNN orðuð með þessum hætti: „Við gefum þeim þrjá kosti: Snúist til íslamstrúar, borgið verndargjaldið eða fáið að finna fyrir sverðum okkar.“ Var tilkynningin spiluð í hátalarakerfi um alla borgina í gær. 

Kristnir menn streyma nú frá Mosúl til nágrannabæjanna Dohuk og Irbil eftir hótanirnar. Árið 2003 bjuggu um 60 þúsund kristnir menn í borginni en í dag eru þeir helmingi færri. Hefur þeim fækkað um 10 þúsund frá því að ISIS-samtökin komu til borgarinnar í júníbyrjun. Hótun ISIS-manna á sér sögulegar rætur og nefnist hún „dhimma“. Í fornum sögum má sjá dæmi þess að kristnir menn fái aðeins að búa í samfélagi íslams ef þeir greiða sérstakt verndargjald til þeirra. 

Sjá frétt CNN

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert