Blóðugasti dagurinn í fimm ár

Flaggað var í hálfa stöng á herstöðinni í Mugataa í …
Flaggað var í hálfa stöng á herstöðinni í Mugataa í Palestínu í dag. ABBAS MOMANI

Dagurinn í dag er blóðugasti dagurinn á Gaza í fimm ár en að minnst kosti 97 Palestínumenn og 13 ísraelskir hermenn hafa látist þar í dag. Heildarfjöldi látinna á Gaza síðan hernaðaraðgerðir Ísraelshers hófust 8. júlí er nú orðinn 435, en rúmlega þriðjungur fórnarlambanna er konur og börn. 

Samkvæmt yfirlýsingu frá ísraelska hernum hafa átján hermenn látist í átökunum. Ekki hafa fleiri ísraelskir hermenn látist í átökum síðan í Líbanonstríðinu 2006. 

Flestir Palestínumenn létust í dag í árás Ísraels á borgina Shejaiya sem er nálægt Gazaborg. Árásin hófst í nótt og hafa 62 Palestínumenn látist þar og 250 særst. 

Þar sem sjúkrabílar gátu ekki nálgast svæðið vegna átakanna var sett tímabundið vopnahlé svo að sjúkraliðar gætu fjarlægt látna og særða. Aðstæðum í hverfinu var lýst sem helvíti á jörðu þar sem líkamsleifar og óreiða voru í aðalhlutverki. 

Heilu byggingarnar höfðu hrunið og aðrar voru alelda. Fréttamaður AFP á svæðinu sagðist hafa séð fjölmörg lík sem voru það illa brunnin að þau væru óþekkjanleg. Einnig sá hann fjölmörg sem á vantaði útlimi. 

Ræða vopnahlé í Katar

Forseti Palestínu, Mahmud Abbas, kom til Katar í dag til þess að hefja vopnahlésviðræður við leiðtoga Hamas, Khaled Meshaal, en von var á Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, þangað seinna í dag til þess að taka þátt í viðræðunum.

Þrátt fyrir gífurlegar hernaðaraðgerðir Ísraelshers í Palestínu hafa Hamas-samtökin hafnað öllum vopnahléstilboðum síðustu daga. 

Forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu, hefur kennt Hamas um dauðsföll óbreyttra borgara á Gaza og sagt að Hamas noti „saklausa borgara sem skildi“.

Netanyahu hefur einnig kallað eftir því að alþjóðasamfélagið bregðist við og að það þurfi aðstoð frá þeim til þess að draga hersveitir Ísraels til baka. 

„Ég held að alþjóðasamfélagið þurfi að útbúa einhvers konar kerfi til þess að minnka hernaðinn á Gaza og breyta stöðunni því hún er óviðunandi,“ sagði forsætisráðherrann í sjónvarpsþætti á CNN. 

Sakar Hamas um ófriðinn

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, John Kerry, sakaði í dag Ham­as-sam­tök­in um að viðhalda ófriði á svæðinu. Hann hefur jafnframt hvatt samtökin til þess að „sýna ábyrgð og samþykkja marghliða vopnahlé án skilyrða“.

Hins vegar hefur forsætisráðherra Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, ásakað Ísraelsmenn fyrir að drepa Palestínumenn „miskunnarlaust“ og gagnrýnt bandarísk stjórnvöld fyrir að hunsa ástandið í Gaza. 

„Hvernig er hægt að hunsa þetta? Hvernig getur land eins og Bandaríkin verið svona blint fyrir þessu?“ spurði forsætisráðherrann. 

Á meðan er ástandið á spítalanum í Shifa í Palestínu hörmulegt. Fórnarlömbin berast stanslaust og meðal þeirra fjölmörg börn mikið særð sem öskra af sársauka. 

„Þetta hefur aldrei áður verið svona slæmt,“ segir læknirinn Said Hassan við AFP, en hann hefur starfað á spítalanum í átta ár.

Óbreyttir borgarar flýja Shejaiya hverfið í morgun.
Óbreyttir borgarar flýja Shejaiya hverfið í morgun. MAHMUD HAMS
Ísraelskur hermaður sem lést í átökunum í nótt var borinn …
Ísraelskur hermaður sem lést í átökunum í nótt var borinn til grafar fyrr í dag. GIL COHEN MAGEN
Forseti Palestínu og Emírinn í Katar hittust í dag.
Forseti Palestínu og Emírinn í Katar hittust í dag. THAER GHANAIM
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert