Vara við hertum viðskiptaþvingunum

Vladimir Pútín
Vladimir Pútín AFP

Frakkar, Bretar og Þjóðverjar vöruðu Rússa við hertum viðskiptaþvingunum Evrópusambandsins þrýstu þeir ekki á aðskilnaðarsinna um að veita eftirlitssveitum óheftan aðgang að flaki MH17, farþegaþotunnar sem hrapaði til jarðar í Úkraínu.

Francois Hollande, Angela Merkel og David Cameron töluðu saman í síma í morgun og ræddu stöðuna. Áhyggjur hafa verið um að aðskilnaðarsinnar séu að hefta aðgengi á svæðinu til þess að geta átt við brakið úr vélinni og fórnarlömbin en Örygg­is- og sam­vinnu­stofn­un Evr­ópu, ÖSE, gaf það út í dag að aðskilnaðarsinn­ar hefðu fjar­lægt lík þeirra af svæðinu þar sem vélin hrapaði og komið þeim fyr­ir í lest­ar­vögn­um.

Talskona breska forsætisráðuneytisins segir þau hafa sammælst um að Evrópusambandið þyrfti að endurhugsa samband sitt við Rússland og að utanríkisráðherrar þyrftu að vera tilbúnir fyrir að ræða hertar viðskiptaþvinganir þegar þeir hittast á þriðjudag. Þá mun Cameron ræða við Pútín um málið síðar í dag.

Í tilkynningu frá franska forsætisráðuneytinu sagði að þær afleiðingar sem Rússar þyrftu að mæta, gripu þeir ekki tafarlaust til nauðsynlegra aðgerða, yrðu ræddar á þriðjudag.

Cameron hafði áður viðrað möguleika á hertum viðskiptaþvingunum Evrópusambandsins gagnvart Rússum og í Sunday Times var haft eftir honum að draga ætti Rússa til ábyrgðar ef staðfest yrði að MH17 hefði verið skotin niður af aðskilnaðarsinnum hliðhollum Rússum í Úkraínu.

Myndir af fjölskyldu sem fórst með MH17
Myndir af fjölskyldu sem fórst með MH17 AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert