David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, viðrar þá skoðun sína í sunnudagsútgáfu Times að herða beri refsiaðgerðir gegn Rússum í kjölfar þess að malasísk farþegaþota var skotin niður í Úkraínu. Hann segir að ef það verði staðfest að aðskilnaðarsinnar hliðhollir Rússum hafi skotið hana niður beri rússnesk stjórnvöld ábyrgðina.
„Ef það er staðreynd þá verðum við að hafa á hreinu þýðinguna. Þetta er bein afleiðing þess að Rússar reyna að veikja stoðir lýðræðisríkis og brjóta gegn alþjóðlegri stöðu þess, styðja við uppreisnarmenn, þjálfa þá og afhenda þeim vopn,“ segir Cameron í grein sinni. „Við verðum að grípa til aðgerða, finna út hver vann þetta óhæfuverk og ná fram réttlæti.“
Cameron segir einnig að ef Vladimir Pútín Rússlandsforseti breyti ekki afstöðu sinni til Úkraínu verði Evrópa og Bandaríkin að breyta afstöðu sinni til Rússlands. „Þá á ég ekki við beinar hernaðaraðgerðir heldur að við verðum að sýna að völd okkar, áhrif og úrræði hafi eitthvað að segja.“