Fylgjast með árásunum af Sderot-hæð

„Ég kom aðallega bara til að upplifa andrúmsloftið,“ sagði hin ísraelska Shiran Ben Ezra við blaðamann AFP uppi á Sderot-hæð, við landamæri Gaza, um helgina. Sjálf býr hún í Tel Aviv, en gerði sér ferð til Sderot til að sjá loftárásirnar á Palestínumenn með eigin augum, en ekki bara í fjölmiðlum, að eigin sögn, og tala við heimamenn þar.

„Það væri auðvitað fínt að upplifa loftárás héðan, öðruvísi upplifun. Svo förum við bara aftur heim,“ sagði Ezra við blaðamann AFP í meðfylgjandi myndskeiði.

Ísraelski bærinn Sderot er nálægt landamærum að Gaza og það er þangað sem flestum flugskeytum hernaðararms Hamas-samtakanna er beint, þótt fæst þeirra drífi raunar nógu langt til að valda neinu tjóni, en einn Ísraelsmaður hefur látið lífið vegna þeirra.

Hlaupa út til að sjá „Járnhvelfinguna“ að verki

Almannavarnaflautur hafa þó verið þeyttar á nokkurra klukkustunda fresti í Sderot síðustu daga og segjast íbúar margir upplifa stöðuga ógn. Það á þó ekki við um alla. Í nærliggjandi þorpi, Yad Mordechai, er t.a.m. kaffihús sem er mikið sótt af fólki sem „eltist við flugskeyti“.

Þau hlaupa út þegar almannavarnaflauturnar óma, í von um að sjá þegar loftvarnakerfi Ísraelshers, „Járnhvelfingin“, stöðvar flugskeyti Hamas á lofti. Enginn á kaffihúsinu leitar skjóls, en í hvert sinn sem flugskeytin eru sprengd í loftinu áður en þau ná að lenda, þá er fagnað.

Þá nýta sumir íbúar Sderot sér útsýnið ofan af samnefndri hæð ofan við bæinn til að virða fyrir sér gagnárásir Ísraelshers yfir Gaza. Margir lögðu leið sína þangað um helgina, þar á meðal blaðamaður AFP sem ræddi við fólk.

„Við lifum samkvæmt þeirri reglu að það sé hættulegt að fara út. Ég er alin upp við flugskeyti Palestínumanna og við stríð,“ sagði Ma-ayan Froim, íbúi Sderot, aðspurð hvers vegna hún færi upp á hæðina. „Við komum hingað núna vegna þess að við höfum fengið nóg af því að stara á veggi öryggisherbergisins heima. Við komum hingað til að hitta fólk, anda að okkur fersku lofti og horfa á sólsetrið.“

Sjá fyrri umfjöllun mbl.is: Horfa á sprengingar og borða popp

Vilja búa á Gaza-svæðinu

Sumir Ísraelsmenn eiga sér draum um að flytja aftur inn á Gaza-svæðið. Hundruð Ísraelsmanna bjuggu þar í svokölluðum landnemabyggðum fram til ársins 2005, þegar Ariel Sharon, þáverandi forsætisráðherra, kallaði þá og herinn burt í afar umdeildri aðgerð.

Haddad-fjölskyldan var þeirra á meðal. Þau bjuggu áður við Gush Katif, gyðingabyggð á Gaza, en voru flutt til þorpsins Nitzan. Í samtali við AFP lýsa þau nostalgíu og reiði yfir flutningunum, tilfinningum sem gjósa upp í hvert sinn sem til átaka kemur við Palestínumenn.

„Ég sé mikið eftir því að við skulum hafa veitt [Palestínumönnum] færi á að lifa í friði þegar við fórum frá Gaza. Og hvernig er það í dag? Við sjáum Kassam-eldflaugar og heyrum í sírenunum alla leið til Jerúsalem,“ sagði Oded Haddad í samtali við AFP.

Yfir 500 Palestínumenn hafa nú verið drepnir í loftárásum og landhernaði Ísraelshers á Gaza. Þá féllu 18 ísraelskir hermenn um helgina. Öryggisráðið kallaði eftir tafarlausu vopnahléi að loknum neyðarfundi í nótt.

Ísraelsmenn horfa yfir Gaza af Sderot hæðinni. Flestir eru íbúar …
Ísraelsmenn horfa yfir Gaza af Sderot hæðinni. Flestir eru íbúar úr samnefndum bæ, en sumir koma lengra að til að sjá loftárásirnar með eigin augum. AFP
Ísraelsmenn horfa yfir Gaza af Sderot hæðinni. Flestir eru íbúar …
Ísraelsmenn horfa yfir Gaza af Sderot hæðinni. Flestir eru íbúar úr samnefndum bæ, en sumir koma lengra að til að sjá loftárásirnar með eigin augum. AFP
Ekki styðja allir Ísraelsmenn árásirnar á Gaza. Þessir aðgerðarsinnar í …
Ekki styðja allir Ísraelsmenn árásirnar á Gaza. Þessir aðgerðarsinnar í Jerúsalem fordæmdu hernaðinn í mótmælagöngu um helgina. AFP
Ekki styðja allir Ísraelsmenn árásirnar á Gaza. Þessir aðgerðarsinnar í …
Ekki styðja allir Ísraelsmenn árásirnar á Gaza. Þessir aðgerðarsinnar í Jerúsalem fordæmdu hernaðinn í mótmælagöngu um helgina. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert