Hollenskir réttarmeinafræðingar komu í dag á brotlendingarstaðinn í Torez í Úkraínu, þar sem þeir munu vinna að því að bera kennsl á lík fólksins sem lést með flugi MH17. Vaxandi þrýstingur er á aðskilnaðarsinna að hindra ekki aðgang sérfræðinga á staðinn. Bandaríkin og fleiri ríki segja vísbendingar hlaðast upp um aðkomu Rússa að málinu.
Hollendingarnir þrír eru fyrstu alþjóðlegu rannsakendurnir sem mæta á staðinn, en til þessa hafa aðeins eftirlitsmenn á vegum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE, verið þar til að fylgjast með því að vegsummerkjum sé ekki spillt. Aðgengi þeirra að flaki flugvélarinnar hefur hinsvegar verið takmarkað af aðskilnaðarsinnum.
Samkvæmt BBC er annar alþjóðlegur rannsóknarhópur á leið á staðinn. Í honum er 31 sérfræðingur, frá Þýskalandi, Bandaríkjunum, Bretlandi og Ástralíu. Þá er 133 manna lið sérfræðinga frá Malasíu komið til Úkraínu. Þar á meðal eru leitarmenn, réttarsérfræðingar og flugvélaverkfræðingar.
Forsætisráðherra Úkraínu, Arseniy Yatsenyuk, sagðist í morgun telja rétt að Hollendingar leiði rannsóknina og að stjórnvöld í Kænugarði séu reiðubúin að senda öll líkin til Amsterdam. Réttarmeinafræðingarnir þrír hófust handa í morgun við að skoða 196 lík sem flutt hafa verið um borð í lestarvagna við brotlendingarstaðinn. Vopnaðir verðir úr liði aðskilnaðarsinna standa vörð um lestina.
Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, sagði í dag að yrði aðgengi að staðnum áfram heft með óásættanlegum hætti þá kæmi til greina að grípa til efnahagslegra og pólitískra vopna til að bregðast við því. „Við viljum fá fólkið okkar aftur,“ sagði Rutte á þingfundi í Haag í dag.
Rússar hafa verið sakaðir um að vopna uppreisnarmennina í Úkraínu, m.a. með loftvarnakerfinu sem talið er að hafi verið notað til að skjóta flugskeyti á farþegaflugvél Malaysia Airlines. John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði m.a. í gærkvöldi að Bandaríkjamenn vissu til þess að stórar sendingar hergagna hefðu farið frá Rússlandi yfir landamærin til Úkraínu undanfarinn mánuð. Þar á meðal hefðu verið skriðdrekar og flugskeytaskotpallar.
Þá segir bandaríska utanríkisráðuneytið vísbendingar um að uppreisnarmenn hafi átt við flugrita vélarinnar, sem þeir hafa undir höndum. Talsmenn aðskilnaðarsinna segjast ætla að afhenda Alþjóðaflugmálastofnuninni flugritann.
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, sagði í sjónvarpsávarpi frá Moskvu snemma í morgun að lykilatriði væri að alþjóðlegir rannsakendur fengju greiðan og öruggan aðgang að brotlendingarstaðnum. Þá hét hann fullri skuldbindingu við að koma á sáttum í Úkraínudeilunni.
„Rússar munu gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að deilan í austurhluta Úkraínu fari úr hernaðarátökum yfir í friðsamlegar og diplómatískar samningaviðræður,“ sagði Pútín. Hann ítrekaði það sem hann hefur áður sagt, að harmleikurinn hefði ekki orðið ef stjórnvöld í Kænugarði hefðu ekki hafið á nýjan leik hernaðaraðgerðir gegn aðskilnaðarsinnum hliðhollum Rússum.
„Að því sögðu, þá hefur enginn rétt á því að nota þennan harmleik til að ná fram þröngum, pólitískum sérhagsmunum.“