Kínversk borg í einangrun vegna plágu

Rottur hafa ekki hvað síst á sér slæmt orð vegna …
Rottur hafa ekki hvað síst á sér slæmt orð vegna þess að þær báru gjarnan með sér bakteríuna sem olli svartadauða. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Borgin Yumen í norðvesturhluta Kína hefur verið einangruð, öllum leiðum þaðan lokað og 151 íbúi settur í sóttkví eftir að karlmaður lést úr kýlapest þar í síðustu viku. Frá þessu greina kínverskir ríkisfjölmiðlar. 

Um 30.000 manns búa í Yumen, í héraðinu Gansu, og er þeim meinað að yfirgefa borgina. Lögregla hefur sett upp vegatálma á jaðri byggðar og er allri umferð vísað frá, að því er fram kemur í ríkissjónvarpinu CCTV. Það fylgir sögunni að nægar birgðir séu af hrísgrjónum, hveiti og olíu handa öllum borgarbúum í einn mánuð.

Maðurinn sem lést á miðvikudag í vikunni sem leið var 38 ára gamall. Hann hafði meðhöndlað hræ af múrmeldýri, sem talið er að hafi borið bakteríuna. Fleiri tilfelli hafa ekki greinst.

Kýlapest (e. bubonic plague) skilgreinist sem smitsjúkdómur af alvarlegustu gerð samkvæmt kínverskum sóttvarnarlögum. Kýlapest var ein birtingarmynd svartadauða, einnar skæðustu farsóttar sögunnar, sem olli dauða milljóna manna í Evrópu á 14. öld.

Sjúkdómurinn er fyrst og fremst bundinn við nagdýr og er afar sjaldgæft að hann berist til manna nú til dags. Nútímasýklalyf virka gegn bakteríunni, en sé ekki brugðist fljótt við með meðferð getur hún leitt menn til dauða á stuttum tíma. Einkenni koma fram 2-6 dögum eftir smit og eru þar mest áberandi kýli sem myndast á líkama vegna bólginna eitla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert