John Kerry utanríkisráðherra Bandaríkjanna sagði í nótt að nokkuð hefði miðað áfram í þá átt að binda endi á 17 daga blóðbað á Gaza, eftir viðræður í Jerúsalem í gær. Það sem af er degi í dag hefur þó 21 Palestínumaður verið drepin, þ.á.m. sex manna fjölskylda, þar sem yngstu börnin voru 3 og 5 ára.
Khaled Meshaal, leiðtogi Hamas samtakanna, sagði óásættanlegt að hindrunum Ísraelsmanna á Gaza verði ekki aflétt, og segja óhugsandi að samþykkja nokkra tillögu að vopnahléi sem feli í sér áframhaldandi herkví. Þannig sé engin virðing sýnd við fórn þeirra Palestínumanna sem séu látnir.
Kerry fundaði með Ban Ki-moon framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í Jerúsalem í gær og með Mahmud Abbas forseta Palestínu í Ramallah á Vesturbakkanum. Milli funda sagði Kerry að undanfarinn sólarhring hefði nokkur árangur náðst í átt að vopnahléi, en enn væri mikil vinna framundan.
Að því loknu hélt utanríkisráðherrann bandaríski til Tel Aviv til fundar við Benjamín Netanyahu. Þeir ræddust við í tvær klukkustundir en gáfu ekki frá sér neina yfirlýsingu að því loknu. Kerry er nú farin aftur frá Ísrael til Kaíró í Egyptalandi.
Bretar blönduðu sér í friðarviðræðurnar í gær þegar nýr utanríkisráðherra þeirra, Philip Hammond, átti síðbúinn kvöldfund með Mahmud Abbas. Utanríkisráðherrann sagði að vopnahlé eitt og sér væri ekki nægjanleg lausn. „Við munum vinna að varanlegri lausn sem gefi Palestínumönnum og Ísraelum færi á því að lifa saman í friði,“ sagði Hammond.
Læknar í Palestínu segja að með nýjustu dauðsföllum í dag sé tala látinna á Gaza kominn upp í 718. Mannréttindasamtök á Gaza segja að yfir 80% þeirra séu almennir borgarar.