Samkvæmt fréttum ísraelska ríkisútvarpsins hafa stjórnvöld í Ísrael hafnað boði John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, um vopnahlé.
Kerry hitti Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, og Sameh Shoukry, utanríkisráðherra Egyptalands, fyrr í dag og í þeirri von um að koma á vopnahléi á Gaza-svæðinu.
Átök hafa nú geisað í 18 daga á svæðinu. 800 Palestínumenn hafa látist og 37 Ísraelsmenn, þar af 34 hermenn.
Hamas-samtökin höfnuðu viðræðum um vopnahlé fyrr í vikunni, en samtökin töldu skilyrðum sínum ekki fullnægt. Samtökin settu meðal annars kröfu um að Rafah landamærin að Egyptalandi yrðu opnuð Palestínumönnum og að efnahagsleg höft yrðu felld niður á Gaza-svæðinu.
Samkvæmt heimildum AFP fréttaveitunnar er þó enn samningsvilji til staðar hjá Hamas-samtökunum.
Kerry mun ferðast til Parísar á morgun til fundar við utanríkisráðherra Quatar og Tyrklands, helstu stuðningsþjóða Hamas-samtakanna, og ræða mögulegar sáttaleiðir að vopnahléi. Þá mun hann einnig funda með erindrekum Frakklands og Bretlands vegna málsins.