Hamas virtu ekki vopnahlé

Frá Shejaiya-hverfinu á Gaza.
Frá Shejaiya-hverfinu á Gaza. AFP

Hamas-samtökin vörpuðu sprengjum á Ísrael í dag stuttu eftir að Ísraelsmenn lýstu því yfir að vopnahlé á Gaza-svæðinu yrði framlengt um fjórar klukkustundir. AFP fréttaveitan greinir frá þessu.

Hamas-samtökin hafa lýst yfir ábyrgð á sprengingum á höfuðborgina Tel Aviv, en einnig borgirnar Ashkelon og Nachal Oz í suðurhluta Ísrael. Samtökin hafa ekki enn tjáð sig um framlengingu vopnahlésins.

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fundaði með erindrekum frá Evrópu og Mið-Austurlöndunum í París í dag í því augnamiði að framlengja vopnahlé á Gaza-svæðinu. Kerry segir að unnið sé að því að mæta kröfum bæði Ísraelsmanna og Palestínumanna í samningi um endalok árásanna.

Yfir þúsund manns hafa nú látist í átökunum á Gaza-svæðinu, en stór hluti fórnarlambanna eru almennir borgarar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert