Þrátt fyrir að meira en vika sé síðan farþegaþota malasíska flugfélagsins Malaysia Airlines, MH17, var skotin niður má enn finna líkamsleifar á víðavangi á slysstaðnum í austurhluta Úkraínu. Þetta segir Tony Abbott, forsætisráðherra Ástralíu.
Mikill meirihluti þeirra 298 farþega þotunnar sem féllu í skotárásinni var af hollenskum uppruna, um 193 manns, en 28 Ástralar voru um borð.
Abbott hyggst senda um 190 lögreglumenn og nokkra hermenn til Úkraínu til að hjálpa hollenska hernum við að ná flaki þotunnar úr höndum aðskilnaðarsinna. Hann segir mikilvægt að sérfræðingar fái aðgang að braksvæði þotunnar og bendir á að með því að senda hermenn til Úkraínu sé hann ekki að reyna að magna átökin í landinu. Þeir fari og hjálpi til eingöngu af mannúðarástæðum.
„Aðrir geta, ef þeir vilja, blandað sér í stjórnmáladeiluna í austurhluta Evrópu. Eina sem við viljum er að fá líkin í okkar hendur og fljúga með þau heim,“ segir forsætisráðherrann.
Flogið var með fyrstu líkin úr flugi MH17 til Hollands á miðvikudag. Þó er ekki útlit fyrir að takist hafi að endurheimta öll líkin, enda eru líkamsleifar enn á víðavangi.