Hamas-samtökin vilja vopnahlé

Gaza-svæðið séð frá Rafah landamærunum.
Gaza-svæðið séð frá Rafah landamærunum. AFP

Hamas-samtökin hafa samþykkt 24 klukkustunda vopnahlé á Gaza-svæðinu, nú skömmu eftir að Ísraelsmenn lýstu því yfir að þeir myndu hefja átök á nýjan leik. AFP fréttaveitan greinir frá þessu.

„Sem svar við íhlutun Sameinuðu þjóðanna hefur verið samið um 24 klukkustunda vopnahlé,“ segir Sami Abu Zuhri, talsmaður Hamas-samtakann, í yfirlýsingu.

Zuhri segir að vopnahléið hefjist áður en Eid al-Fitr hefst, sem er þriggja daga hátíð múslima í lok Ramadan mánaðarins. Hátíðin hefst á morgun.

Samkvæmt heimildum AFP hafa Ísraelsmenn ekki sýnt nein viðbrögð við yfirlýsingu Hamas-samtakanna og hefur ísraelski herinn haldið skotárásum sínum áfram.

Ísraelsmenn tilkynntu fyrr í dag að þeir myndu hefja árásir á Gaza-svæðið að nýju eftir vopnahléið sem hafði staðið yfir í sólarhring.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert