Nick Clegg, aðstoðarforsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Frjálslyndra demókrata, hefur lýst því yfir að hann vilji að FIFA láti aðra þjóð halda HM 2018 heldur en Rússland. Ummælin falla stuttu eftir að flugvélin MH17 var skotin niður yfir Úkraínu.
„Við getum ekki leyft Rússum að sverta þessa fallegu íþrótt með ljótum aðgerðum á rússnesku landamærunum við Úkraínu,“ sagði Clegg við Sunday Times og bætti við: „Ekki aðeins myndi Vladimir Pútín notfæra sér slíkt tækifæri heldur myndi það láta restina af heiminum líta illa út. Það myndi líta út fyrir að það væri engin alvara á bak við mótmæli okkar gegn hegðun Pútíns.
Vill Clegg að íþróttaviðburðir sem HM, verði notaðir til þess að setja pressu á þjóðir á alþjóðavettvangi. „Pútín getur ekki haldið áfram að reyna á þolinmæði alþjóðasamfélagsins með því að skapa óöryggi í Úkraínu og halda hlífiskildi yfir aðskilnaðarsinnum í Austur-Úkraínu, og á sama tíma hljóta þann heiður að halda heimsmeistaramótið í knattspyrnu árið 2018,“ segir Clegg.